30.1.2016 16:15

Laugardagur 30. 01. 16

Fréttir um vandræði innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) við kjör á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) bera með sér að einkennilega hefur verið staðið að vali fulltrúanna.

Ásta Rut Jónasdóttir. fulltrúi VR, hefur verið formaður stjórnar lífeyrissjóðsins síðan í september 2013 þegar hún tók við að Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrv. þingmanni Samfylkingarinnar, sem sat aðeins um 2 mánuði á formannsstólnum áður en hún hvarf til starfa á Landspítalanum þar til hún varð sáttasemjari ríkisins í fyrra. Ásta Rut hafði starfað innan stjórn VR m.a. sem varaformaður, hún var á sínum tíma formaður Hagsmunasamtaka heimilinna.

Ásta Rut gagnrýnir framkvæmd kosningarinnar á fulltrúum í stjórn LV og segir um hana á mbl.is í dag: „Kosn­inga­rétt­ur er mik­il­væg­ur grunn­rétt­ur og ekki tek­inn af eft­ir geðþótta enda afar óheppi­legt ef hægt sé að kippa slík­um réttu úr sam­bandi án skýrra heim­ilda.“

Þarna vísar hún til þess að henni var bannað að kjósa í trúnaðarráði VR við val á fulltrúum í stjórn LV. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, tilkynnti einhliða í tölvubréfi 18. janúar 2016: „Eins er rétt að taka fram að stjórn­ar- og trúnaðarráðsmenn, ef þeir eru meðal um­sækj­enda, eru van­hæf­ir til að taka þátt í at­kvæðagreiðslu stjórn­ar og trúnaðarráðs.“ Hvergi í lögum eða reglum VR er að finna stafkrók um heimild til að svipta frambjóðendur kosningarétti.

Stefán Sveinbjörnsson fékk, án útboðs, ráðgjafarfyrirtækið Hagvang til að forvelja úr 40 manna hópi sem hafði áhuga á setu í stjórn LV í umboði VR. Taldi Hagvangur 26 vanhæfa til þess, þar á meðal stjórnarmann í LV sem staðist hafði skoðun Fjármálaeftirlitsins. Forvalið á vegum Hagvangs mun að sögn heimildarmanns hafa kostað VR um 4 milljónir króna.

Á fundi trúnaðarráðs VR var framkvæmd kosningarinnar um sætin tvö í stjórn LV algjört hneyksli að sögn sama heimildarmanns: engin kjörstjórn, réttur frambjóðenda fótum troðinn, kjörseðlar gallaðir og kosningin tvítekin, sú seinni eftir að nokkrir trúnaðarráðsmenn voru farnir af fundi. Efasemdir eru um að eftirlit með talningu hafi verið nóg. Ásta Rut féll úr stjórn á einu atkvæði.

Allt ber þetta annaðhvort vott um reynsluleysi við framkvæmd kosninga eða purkunarlaust ofríki. Um Ólafíu B. Rafnsdóttur, formann VR, verður seint sagt að hún hafi enga reynslu af kosningum. Hún var kosningastjóri Ólafs Ragnars í forsetakosningunum 1996 og 2012 auk þess að stjórna baráttu Ingibjargar Sólrúnar gegn Össuri Skarphéðinssyni um formennsku í Samfylkingunni 2005. Þá voru uppi ásakanir um kosningabrögð með skráningu stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar í flokkinn.