2.1.2016 16:00

Laugardagur 02. 01. 16

Finnur Árnason, forstjóri Haga, sker í áramótagrein í Viðskiptablaðinu upp herör gegn búvörusamningi sem er í smíðum. Forstjóranum blöskrar ef hann kosti 18 milljarða króna á ári sem jafngildi 180 milljörðum á 10 árum. „Samn­ing­ur til tíu ára þýðir skatt­lagn­ingu í tíu ár,“ segir forstjórinn og rekur ekki í fyrsta sinn horn í síðu íslenskra bænda. Málflutningur í þá veru á ávallt hljómgrunn hjá ýmsum og setti sterkan svip á röksemdir ESB-aðildarsinna á meðan þeim var flíkað.

Í rökræðum um ESB-aðildina voru rök aðildarsinna meðal annars þau að ganga yrði í ESB til að fella niður tolla. Í tíð Bjarna Benediktssonar sem efnahags- og fjármálaráðherra hefur réttmæti þessara fullyrðinga verið afmáð. Tollar og vörugjöld lækka en Íslendingar eru blessunarlega utan ESB. Áróðurinn gegn bændum magnaðist á tíma hinna misheppunuðu ESB-aðildarviðræðna og það er hluti af ESB-blekkingariðjunni hér á landi að láta eins og verslun með landbúnaðarvörur sé frjáls og án ríkisíhlutunar í ESB, því fer víðsfjarri. Sérhver þjóð vill standa vörð um eigið fæðuöryggi.

Sama dag og grein Haga-forstjórans birtist í Viðskiptablaðinu birti Morgunblaðið frétt sem var reist á forystugrein í nýjasta hefti Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra. Þar segja Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri meðal annars:

„Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra hefur á undanförnum misserum kannað mögulegt umfang undanskota frá sköttum hérlendis. Niðurstaðan er um margt athyglisverð, en þar ber hæst að rösklega 80 milljarða vanti upp á þær skatttekjur sem umsvif í þjóðfélaginu gefa vísbendingar um að ættu að vera. Þetta hefur verið kallað skattagapið og eru það þeir skattar og þau gjöld sem ekki skila sér til þjóðarbúsins. Það myndi breyta miklu fyrir samfélagið í heild ef unnt væri að draga úr undanskotum til framtíðar.“

Hér er um 80 milljarða árið 2015 að ræða. Talan tekur mið af umsvifum í þjóðfélaginu og hækkar þegar þau aukast eins og nú er. Hún verður örugglega hærri en 800 milljarðar á 10 árum. Spyrja má hvers vegna umhyggja forstjóra Haga fyrir hag skattgreiðenda beinist ekki að hagsmununum sem hér um ræðir. Það er í raun nærtækara og arðbærara fyrir þjóðarbúið en að vega að bændum og landbúnaði.