22.1.2016 16:15

Föstudagur 22. 01. 16

Viðtal mitt við Magneu Marínósdóttur alþjóðastjórnmálafræðingi á ÍNN miðvikudaginn 20. janúar er komið á netið og má sjá það hér. 

Umræðurnar um sölu Landsbankans á  kortafyrirtækinu Borgun og um úthlutun listamannalauna eiga það sammerkt að gefið er til kynna að í raun ráði eitthvað annað ákvörðunum þeirra sem þær taka en málefnalegt sjónarmið. Að einhvers staðar sé einhver „Guðjón á bakvið tjöldin“ sem ráði þessu öllu í raun.

Í stað þess að líta á staðreyndir og greina hvernig ákvarðanir eru teknar eða hlusta á lýsingar þeirra sem að þeim standa kjósa sumir frekar að ala á dylgjum. Salan á Borgun er rædd enn og aftur vegna þess að andstæðingar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, telja sig geta komið höggi á hann. Meira líf er í þessum umræðum en um listamannalaunin vegna þess að fréttastofa ríkisútvarpsins leggur sig fram um að enduróma dæmalausan málflutning formanns Samfylkingarinnar.

Stjórnarformaður Landsbankans og bankastjóri hans hafa lýst þeirri skoðun opinberlega að eftir á að hyggja hefði átt að hafa opnari aðferð við að selja hlut bankans í Borgun. Miðað við allt sem sagt hefur verið undanfarin ár um nauðsyn trúnaðar og trausts í viðskiptum banka ber það vott um dæmalausan dómgreindarbrest stjórnenda Landsbankans að verða ekki vitrir fyrr en almannatengsla-skaðinn er skeður. Hið sama ber að segja um sölu Arion-banka til valinna viðskiptavina á hlutabréfum í Símanum.

Það er síður en svo einsdæmi hér á landi að stjórnendur bankastofnana gangi fram á þann veg að öðrum blöskri. Þetta er þekkt um heim allan og má rekja til þess að innan þessara stofnana skapast andrúmsloft yfirlætis ef ekki hroka. Fram yfir miðja þessa öld tíðkaðist það til dæmis að ráðherrar fóru til fundar við stjórnendur Landsbankans í húsakynnum hans í stað þess að bankastjórar röltu í Stjórnarráðshúsið.

Í fangelsum landsins situr nú hópur manna sem hélt þannig á málum við stjórn banka að þeir hafa hlotið margra ára refsidóma fyrir það. Innan við áratugur er síðan þær refsiverðu ákvarðanir voru teknar. Læri menn ekki af reynslunni og sögunni rata þeir einfaldlega í ógöngur. Nú hefur seðlabankastjóra til dæmis verið stefnt vegna afskipta hans af sölunni á Sjóvá á sínum tíma.

Er ekki ástæðulaust að velta vöngum um „Guðjón á bakvið tjöldin“ þegar ákvarðanir í bönkum eiga í hlut?