17.1.2016 15:00

Sunnudagur 17. 01. 16

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt á vefsíðu sinni drög að frumvarpi til nýrra laga um dómstóla og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð einkamála og meðferð sakamála. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um frumvörpin á netfangið  til og með 29. janúar 2016.

Frumvörpunum er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipan. 

Í ítarlegri greinargerð með dómstólafrumvarpinu segir meðal annars:

„Íslendingar hafa nú um rúmlega tveggja áratuga skeið búið við einfalt, gagnsætt og tiltölulega hagkvæmt dómstólakerfi. Dómskerfið er þó ekki hnökralaust. Alvarlegustu ágallarnir hafa á síðustu árum verið taldir þeir annars vegar að ekki sé unnt að fá endurskoðun Hæstaréttar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum og hins vegar að fordæmisgildi dóma Hæstaréttar líði fyrir mikinn málafjölda í Hæstarétti sem skapi að auki hættu á misvísandi niðurstöðum og að mál fái ekki nægilega vandaða málsmeðferð. […]

Þessu frumvarpi og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipan.

Flest dómstólakerfi í Evrópu eiga það sameiginlegt að hafa þrjú dómstig og taka kröfur sem Mannréttindadómstóll Evrópu gerir til réttlátrar málsmeðferðar mið af þessu. Erfitt hefur reynst að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur á sviði réttarfars og mannréttinda í Evrópu vegna þess að tveggja þrepa dómskerfis sem hér hefur verið. Þær lausnir sem gripið hefur verið hafa ekki reynst fullnægjandi.“

Vafalaust verða ekki allir á eitt sáttir um útfærslu einstakra þátta í þessu máli frekar en öðrum þótt öllum sé ljóst að nauðsynlegt sé að koma á fót svonefndu millidómstigi sem nefnt er Landsréttur í frumvarpinu. Hugmyndin að nafni á sér fordæmi í Danmörku þar sem Vestre Landsret er í Viborg og Østre Landsret í  Kaupmannahöfn. 

Miklu skiptir að menn missi ekki sjónar á efni málsins við þær umræður sem nú hljóta að hefjast en sterkir skoðanastraumar leika um dómstólakerfið og hvernig staðið er að því að skipa dómara. Undanfarin ár hefur pendúllinn sveiflast alltof langt til þeirrar áttar að dómarar ráði sjálfir hverjir bætast í þeirra hóp, innræktun er varasöm á þessu sviði eins og öðrum.