Mánudagur 04. 01. 16
Í gær sagði ég hér frá forsetaframboði Árna Björns Guðjónssonar. Til að öll sagan sé sögð birtist hér frétt af mbl.is í dag:
„Árni Björn Guðjónsson, fyrrverandi oddviti Kristilega lýðræðisflokksins, hefur dregið til baka framboð sitt til embættis forseta Íslands.
Í yfirlýsingu sem Árni sendi fjölmiðlum í dag segir að þar liggi „sérstakar ástæður“ að baki en ástæðurnar eru ekki tilteknar frekar.
„Ég vona að þeir sem sem verða kosnir verði ötulir baráttumenn eða konur gegn haturs meðal mannkyns,“ segir í yfirlýsingu Árna. Framboð hans varði í rétt rúman sólarhring en hann hafði tilkynnt að hann hyggðist aðeins sitja í tvö kjörtímabil næði hann kjöri.“
Árni Björn sagðist einnig ætla að leita liðsinnis Frans páfa. Kannski hefur það ekki tekist og framboðið því fallið um sjálft sig.
Á síðunni vardberg.is má hér lesa grein úr Frankfurter Allgemeine Zeitung um handbók sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa sent frá sér til að búa liðsmenn sína undir átök í Evrópu. Þetta er fróðleg úttekt sem ýmsum kann að þykja ógnvekjandi.