13.1.2016 17:15

Miðvikudagur 13. 01. 16

Í dag ræddi ég á ÍNN við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Samtalið er 51 mínúta og skiptist í þrjár lotur, um skipulagsmál, um alþjóða- og flóttamannamál, um efnahags- og stjórnmál. Markmið samtala minna er ekki að stofna til ágreinings við viðmælendur mína heldur fá þá til að miðla þekkingu sinni, reynslu og viðhorfum. Þeim sem vilja hanaslag í sjónvarpssal er bent á að snúa sér annað!

Augljóst er að 365 undir yfirstjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fetar nú sama stíg og Baugsmiðlarnir gerðu á tíma Baugsmálsins. Leitast er við að gera hlut efnahagsbrotamanna sem bestan og sverta þá sem standa að rannsókn, saksókn og dómum. Nú bætist fangelsismálastjóri í hóp hinna fordæmdu. Á hlut hans reyndi ekki í Baugsmálinu því að höfuðpaurar þess voru ekki dæmdir til fangelsisvistar.

Lýsingu á aðferðunum sem beitt er má finna í  bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Að öðrum þræði hugsaði ég hana sem handbók fyrir þá sem vilja átta sig á hvernig auðugir efnahagsbrotamenn með aðgang að fjölmiðlaveldi haga sér. Rangar fullyrðingar í skýrslu rannsóknarnefndar um að ekkert opinbert aðhald hafi verið að fésýslumönnum í aðdraganda hrunsins voru þó meginástæðan fyrir að ég ákvað að skrifa bókina.

Hinn 9. janúar 2016 birtist þetta á vefsíðu Viðskiptablaðsins:

Nú er ljóst að aðeins fæst 2,9% upp í kröfur í þrotabú Baugs. Heildarkröfur í búið nema 240 milljörðum króna en kröfuhafar fá aðeins 7 milljarða króna. Þetta er líklega stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, fyrir utan föllnu viðskiptabankanna.

Þá rifjast upp orð Davíðs Oddssonar fyrrverandi seðlabankastjóra sem féllu á fundi Viðskiptaráðs skömmu eftir fall bankanna. „Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá.“ Þetta var staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í þessu ljósi er fróðlegt að lesa grein eftir Jón Ásgeir í Morgunblaðinu í nóvember 2008. Þar segir Jón: „Gunnar Smári [sem hafði gert skuldirnar að umtalsefni] gleymir að nefna að á móti skuldum félaganna þriggja sem hann tilgreinir koma eignir. Mér þykir því rétt að upplýsa Gunnar Smára og aðra áhugamenn um stöðu umræddra fyrirtækja um að samanlagðar eignir Baugs, Stoða og Landic Property um mitt þetta ár námu tæplega 1.200 milljörðum króna. Skuldirnar, við innlenda sem erlenda lánardrottna, námu hins vegar rúmlega 900 milljörðum króna.““