28.1.2016 17:00

Fimmtudagur 28. 01. 16

ÍNN-viðtal mitt við Birgi Jakobsson landlækni er komið á netið eins og sjá má hér.

Laugardaginn 29.ágúst 2015 sagði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður á aðalfundi Pírata að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 19. september 2015 tók Árni Páll Árnason flokksformaður undir hugmyndir Birgittu og sagði að Samfylkingin ætti að „leita samstöðu með öðrum umbótasinnuðum öflum um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna, framhald stjórnarskrárbreytinga og aðrar nauðsynlegar grundvallarbreytingar í kjölfar næstu kosninga. Píratar hafa sett fram hugmynd um stutt þing í þessu skyni og það er hugmynd sem vert er að ræða.“

Í tilefni af orðum Árna Páls birtist samtal við Birgittu í fréttatíma ríkisútvarpsins sunnudaginn 20. september 2015 þar sem hún sagði meðal annars: „Það er öllum frjálst að koma að tala við okkur. Ég vil aftur á móti bara leggja höfuðáherslu á það að við erum ekki í kosningavetri. Við eigum að einbeita okkur að bara að neyðarástandi sem hér ríkir.“

Samtal fréttamannsins og Birgittu var einkennilegt því að engu var líkara en hvorki fréttamaðurinn né sjálf Birgitta áttaði sig á að Árni Páll var að taka í framrétta hönd Birgittu eins og hún væri ætluð fylgislausum samfylkingarmanni. Nú man örugglega enginn eftir hvaða „neyðarástand“ ríkti 20. september 2015 þótt það ætti allan hug Birgittu þá.

Stefnulaust stjórnmálatal Birgittu fellur svo vel að skoðunum almennra kjósenda að í dag mælir Fréttablaðið pírata með  tæplega 42% fylgi. Þá bregður svo við að Birgitta segist ætla að bjóða sig fram árið 2017. Hún sagði á Facebook-síðu Frálshyggjufélagsins að kvöldi þriðjudags 26. janúar 2016:

Ég mun bjóða mig fram til að tryggja að þið sem talið um að sniðugt sé fyr­ir frjáls­hyggju­menn að ganga í Pírata til að geta tekið yfir kosn­inga- og stefnu­mót­un­ar­ferl­in okk­ar. Ég ætla að bjóða mig fram þó það væri ekki nema til að tryggja að ykk­ar hug­mynda­fræði taki ekki yfir Pírata.“

Það er ekki öllum frjálst að koma og tala við pírata. Birgitta óttast mest að flokkur þeirra fái stefnu þess vegna býður hún sig fram.