1.1.2016 13:50

01. 01. 16 - Nýársdagur

 

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegs árs og farsældar með þökk fyrir samfylgdina á liðnum árum.

Ólafur Ragnar Grímsson lýsti yfir í nýársávarpi sínu að hann yrði ekki í kjöri sem forseti í lok júní á þessu ári og lýkur embættisferli hans sem forseta því 1. ágúst 2016. Hann ætlar þó ekki að setjast í helgan stein heldur vill hann frelsi til að vinna að málum sem hann telur öllu mannkyni til framdráttar.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir lét af embætti forseta 66 ára að aldri árið 1996 var henni skapað starfsumhverfi af opinberri hálfu sem gerði henni kleift að sinna áhugamálum sínum. Árangur þess starfs hennar sést meðal annars í því að í háskólahverfinu á Melunum rís nú bygging yfir starfsemi stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem einkum er helguð virðingunni fyrir tungumálum.

Málefnaleg rök Ólafs Ragnars fyrir að draga sig í hlé voru skírskotun til þess sem hann sagði þegar hann ákvað að bjóða sig fram í fimmta sinn árið 2012. Hann sagði:

„Átökum við Evrópuríki í hinu svonefnda Icesave máli lauk með fullnaðarsigri Íslendinga, bæði í krafti þjóðaratkvæðagreiðslna og úrskurðar EFTA dómstóls.

Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, áformin um grundvallarbreytingar á fullveldi Íslands, hafa verið lögð til hliðar og allir flokkar á Alþingi heita því nú að aldrei verði aftur lagt í slíka vegferð nema þjóðin heimili það fyrst í sérstakri atkvæðagreiðslu.

Uppgjör vegna hinna föllnu banka og afnám hafta í viðskiptum við önnur lönd eru senn í höfn; breið samstaða bæði innan þings og utan um lokaáfanga á þeirri braut.

Deilurnar um uppstokkun á stjórnskipun landsins hafa vikið fyrir sátt um að velja heldur einstaka þætti sem njóta myndu víðtæks stuðnings; setja í forgang ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðareign á auðlindum.“

Allt er þetta rétt og afskipti Ólafs Ragnars af þessum málum hafa haft mikið gildi um farsæla niðurstöðu. Það ber að meta og þakka. Á hinn bóginn hefur hann beitt forsetavaldi á þann veg að jafnvægi innan stjórnskipunarinnar hefur raskast og verður ekki úr því bætt nema með nýju og skýrara ákvæði í stað 26. gr, stjórnarskrárinnar. Um þetta fjallaði ég í pistli hér á síðunni í gær.