14.1.2016 16:00

Fimmtudagur 14. 01. 16

 

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnuveitendur hafi heimild til þess að lesa tölvubréf og aðrar rafrænar orðsendingar starfsmanna sinna. Rúmenskur verkfræðingur var rekinn fyrir að senda tölvubréf til unnustu sinnar á reikningi sínum hjá Yahoo sem hann hafði opnað að ósk vinnuveitanda síns. Hann stefndi vinnuveitenda sínum vegna uppsagnarinnar.

Málið má rekja aftur til 2007 en vinnuveitandinn fylgdist með sendingum starfsmannsins í nokkra daga og lagði síðan fram 45 bls. útskrift af þeim og þar á meðal voru bréf til unnustu starfsmannsins. Þriðjudaginn 12. janúar komst dómstóllinn í Strassborg að þeirri niðurstöðu að ekki væri „ósanngjarnt að vinnuveitandi vildi staðfesta að starfsmenn hans sinntu starfsskyldum sínum á vinnutíma“.

Vinnuveitandinn sagðist hafa bannað starfsmönnum sínum að senda einkaskilaboð á meðan þeir væru í vinnunni. Dómararnir sögðu starfsmanninn ekki hafa gert „sannfærandi grein“ fyrir því hvers vegna hann hefði notað „Yahoo skilaboða-reikninginn í persónulegum tilgangi“.

Þessi dómur er leiðbeinandi fyrir íslenska dómstóla. Hann leiðir til þess að strangar kröfur verður að gera til stjórnenda um að upplýsa starfsmenn um rétt þeirra til afnota af tölvupóstkerfum vegna einkamála og hvort sendingarnar séu lesnar af eftirlitsmönnum fyrirtækisins „það er mjög erfitt að réttlæta eftirlit framkvæmt með leynd“ segir sérfræðingur í réttarstöðu launamanna við breska blaðið The Daily Telegraph. Annar sérfræðingur sagði dómstólinn hafa komist að þessari niðurstöðu vegna þess að starfsmaðurinn hefði fullyrt að hann hefði aðeins notað Yahoo-reikninginn til að senda boð tengd starfi sínu.

Í dóminum segir: „Vinnuveitandinn fór ekki út fyrir agavald sitt þar sem hann hafði, eins og heima-dómstólar sáu, skoðað Yahoo-reikninginn í þeirri trú að umræddar upplýsingar hefðu verið starfstengdar og þess vegna hefði athugunin verið lögmæt.“

Það veikir ekki trúverðugleika lögreglu að Sigríður Björk Guðjónsdóttir taki mál öðrum tökum en forverar hennar í starfi lögreglustjóra. Hver yfirmaður hefur sinn stíl. Það er hins vegar undarlegt að stofnað sé til samblásturs vegna þessa í fjölmiðlum og Landssambandi lögreglumanna beitt í málinu á annan hátt en Lögreglufélag Reykjavíkur ályktar um það.