8.1.2016 18:00

Föstudagur 08. 01. 16

Sérkennilegt er ef engin rödd heyrist á alþingi sem er í takt við raddirnar sem verða æ háværari á þjóðþingum annars staðar í Evrópu um nauðsyn þess að staldra við og endurskoða stefnu og lög um útlendingamál í ljósi þess hve íþyngjandi straumur farand- og flóttafólks er til þessara landa.

Síðasta dag fyrir jólahlé var einróma samþykkt á alþingi að hafa ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun tveggja fjölskyldna til Albaníu að engu. Tekin var sú einstæða ákvörðun að veita fjölskyldunum ríkisborgararétt.

Í dag hefur ríkisútvarpið í nokkrum fréttatímum sagt að sex þingmenn Samfylkingarinnar hafi lagt fram tillögu til þingsályktunar um að undirbúa stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna og sé Ólína Þorvarðardóttir fyrsti flutningsmaður – þetta hafi komið fram í morgunútvarpi rásar 2. Þótt þingmaður komist í morgunútvarpið og kynni einhverja hugmynd jafngildir það ekki framlagningu máls á alþingi – tillagan er ekki komin fram og þing kemur ekki saman fyrr en 19. janúar.

Ólína kynnti tillöguna sem andsvar við störfum Útlendingastofnunar sem hafi „úrskurðarvald og rannsóknarskyldu“ en gæti ekki hagsmuna flóttamannsins sem þurfi að aðstoða og hjálpa „í gegnum kerfið“.

Á ruv.is segir í dag:

„Ólína segir að það sé ekkert launungarmál að það hafi verið ágreiningur í þjóðfélaginu um málsmeðferð flóttamanna og vaxandi gagnrýni mörg undanfarin ár. „Það kann að vera vegna þess að verið er að gera óraunhæfar kröfur til stofnunar eins og Útlendingastofnunar. Hún er ekki mannúðarstofnun. Hún er meira í ætt við lögreglu. Menn verða að skilja það. Ef við ætlum að gæta hagsmuna flóttamanna þá þurfum við að tryggja að flóttamenn hafi þann hagsmunagæsluaðila.“

Þessi ummæli eru aðeins enn ein staðfestingin á nauðsyn þess að veita alþingismönnum meira aðhald þegar þessi alvarlegu mál eru á döfinni. Hið sérkennilega í málinu er ef enginn á alþingi áttar sig á nauðsyn þess að ræða útlendingamál á öðrum forsendum en þeim að íslensk stjórnvöld sem fara að íslenskum lögum séu í raun mannfjandsamleg. Ólína gefur til kynna með orðum sínum að hlutverk lögreglu sé óvinveitt borgurunum, Útlendingastofnun sé af sama meiði og þess vegna beri að setja einhvern opinberan aðila til höfuðs henni.

Hagsmuna flóttamanna er gætt á Íslandi í samræmi við innlend lög og alþjóðasamninga. Að halda öðru fram er vísvitandi blekking og misheppnað lýðskrum.