Laugardagur 09. 01. 15
Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, birti grein á Facebook-síðu sendiráðsins og leiðrétti rangfærslur vegna skrifa hér á landi um framkvæmd á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi eftir yfirgang Rússa og ólögmæta innlimun á Krímskaga í Rússland. Þetta var tímabær áminning um nauðsyn þess að farið skuli með rétt mál í umræðum um utanríkis- og öryggismál.
Rússar hafa komið á fót sérstakri rangfærsludeild til að blekkja Vesturlandabúa og stofna til illinda innan einstakra ríkja. Stundum dettur manni helst í hug að deildin standi að baki ýmsu sem hér er sagt um ástandið í Úkraínu og hlut Rússa. Má þar nefna aðsendar greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu til stuðnings málstað Rússa.
Íslensk stjórnvöld hafa réttilega tekið afstöðu með bandamönnum sínum innan NATO gegn yfirgangi Rússa. Fyrirlitning á alþjóðalögum er hættuleg ögrun ekki síst fyrir smáríki. Varðstaða um virðinguna fyrir þeim er grunnþáttur í utanríkisstefnu Íslands.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti setti bann á innflutning frá Íslandi í refsiskyni vegna aðgerða þar sem hlutur Íslendinga skaðaði ekki Rússa á neinn hátt. Að breyta þessu ofríki Pútíns í árásarefni á Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra ber með sér handbragð rangfærsludeildarinnar í þágu Rússa.
Minna er talað um hinn þátt óvinsemdar Rússa í garð íslenskra matvælaframleiðenda sem birtist í gjörðum Matvælastofnunar Rússlands og lesa má um hér.
Stofnunin hefur sett íslensk fyrirtæki á bannlista. Ákvörðunin um það er tekin án tillits til Úkraínudeilunnar. Þessi rússneska stofnun er angi hins spillta stjórnkerfis í skjóli Pútíns og fer það orð af henni að fyrirgreiðslufé skipti meira við ákvarðanir hennar en fjöldi örveira þótt vísað sé til þeirra í tilkynningum um innflutningsbann.
Það er hluti af rangfærslusmíðinni að láta eins og hið sama búi að baki banni Pútíns og banni matvælastofnunarinnar.
Hið rétta að baki ofríkisákvörðunum skýrist oft aðeins á nokkrum tíma.
Meirihlutinn í Reykjavík hefur skýrt hækkun á gjaldi fyrir sorphirðu og fækkun sorphirðudaga á ýmsan hátt. Hjálmar Sveinsson (Samfylkingu) segir öskubílana menga svo mikið að fækka verði ferðum þeirra. Sóley Tómasdóttir (VG) skrifar í Fréttablaðið 9. janúar:
„Hagrænn og heilsusamlegur ávinningur af reglulegum gönguferðum [með sorp] á grenndarstöðvar getur verið umtalsverður. Í Reykjavík eru reknar 57 grenndarstöðvar, staðsettar í innan við 500 metra fjarlægð við 85% heimila í Reykjavík.“
Borgarbúar eiga sem sagt sjálfir að bera sorp sitt í stöðvar borgarstjórnar sér til heilsubótar.