18.1.2016 18:15

Mánudagur 18. 01. 16

Útlendingastofnun sendi frá sér greinargerð föstudaginn 15. janúar um fjölda hælisumsókna á árinu 2015 og reyndust þær vera 354 eða tvöfalt fleiri en árið 2014 (176) og árið 2013 (172). Flestir voru umsækjendur frá „örugga landinu“ Albaníu eða 108.

Þessi fjölgun er ekki einsdæmi hér á landi eins og allir vita af fréttum. Í nágrannalöndunum þótti yfirvöldum nóg um og hafa nú gripið til aðgerða sem eiga að stemma stigu við komu annars fólks en þess sem raunverulega er taldið í nauðum staddir. Albanir eru ekki í þeim hópi eða annað fólk frá löndunum á Balkanskaga.

Á vefsíðunni vardberg.is birtist í dag frétt um að Austurríkismenn geri nú í vikunni ráðstafanir til að halda þeim í Slóveníu sem segist vera á leið til Norðurlandanna. Þetta gera Austurríkismenn vegna þess að við landamæri Þýskalands og Austurríkis er fólk á leið til Norðurlandanna stöðvað af þýskum landamæravörðum og sent aftur til Austurríkis. Sjá fréttina hér. 

Sama dag og Útlendingastofnun birti yfirlit sitt fyrir árið 2015 eða 15. janúar 2016 höfðu 29 manns leitað hælis hér á landi á árinu 2016 eða að meðaltali 15 á viku. Gefi það vísbendingu um fjölda á nýbyrjuðu ári verða hælisleitendurnir 780 eða tvöfalt fleiri en árið 2015. Af þessum 29 voru nú 12 Albanir og 4 Makedóníumenn. Hvort stefni í komu 312 Albana í hælisleit í ár skal ósagt en hitt er víst að sú ákvörðun alþingis að hafa brottvísun Útlendingastofnunar á Albönum að engu fer að sjálfsögðu ekki leynt í hópi þeirra. Tal þingmanna um að ekki hafi verið um fordæmi að ræða hefur líklega þótt ástæðulaust að þýða á albönsku enda hefur það ekkert lögformlegt gildi.

Hinn 8. janúar sl. skrifaði ég grein í Morgunblaðið um auknar heimildir íslenskra yfirvalda til að fylgjast með komu fólks til landsins og ráðstafanir sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum til að flutningsaðilar vísi þeim á brott sem ekki hafa lögmætar heimildir til að ferðast til viðkomandi lands. Má lesa greinina hér.

Af vísbendingum um fjölda hælisleitenda sem birtast í tölum um tvær fyrstu vikur ársins má ráða að full ástæða sé fyrir íslensk stjórnvöld  að huga að aðgerðum á borð við þær sem gripið hefur verið til annars staðar á Norðurlöndunum. Til þess eru fullar lögheimildir.