1.9.2004 0:00

Miðvikudagur, 01. 09. 04.

Klukkan 18.00 var ég í Þjóðminjasafninu, þegar það var opnað við hátíðlega athöfn með þátttöku 700 gesta, Davíð Oddsson klippti á borða og var þetta fyrsta embættisverk hans, frá því að hann veiktist.

Safnið og sýning þess ber með sér glæsileika og settur er nýr stuðull fyrir allar sýningar í landinu. Það vakti athygli fleiri en mín, að danski þjóðminjavörðurinn, sem flutti ávarp við athöfnina sá ástæðu til að þakka stjórnmálamönnum sérstaklega fyrir að staðið væri jafnvel að endurgerð safnsins. Eitt er víst, að án pólitískra ákvarðana hefði ekki verið ráðist í þetta verk.

Frá upphafi hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að það ætti að gefa endurreisn safnsins þann tíma, sem þyrfti til að vel yrði að henni staðið - í ljósi tímans og sögunnar skipti það meira máli en að kippa sér upp við nöldrið í pólitískum andstæðingum, sem reyndu á framkvæmdatímanum að finna allt til að gera sem minnst úr okkur, sem stóðum að því að ákveða framkvæmdina og bárum á henni pólitíska ábyrgð.

Sýningin og húsið er aðeins toppurinn á þeim ísjaka, sem Þjóðminjasafnið er.