12.10.2012 20:45

Föstudagur 12. 10. 12


Við komum aftur til Boston frá New Haven í gær og horfðum á kappræður bandarísku varaforsetaefnanna á heimili gamalla hjóna sem eru stuðningsmenn Obama. Greinilegt var að Joe Biden varaforseti talaði stundum beint til þeirra en þeim þótti ekki allt merkilegt sem Paul Ryan sagði. Yfirlæti Bidens í garð keppinautar síns og fliss hans eða hlátur spillti mjög fyrir honum.

Ég renndi í gegnum Morgunblaðið á netinu og sé að Sveinn Skúlason tekur að sér að bera í bætifláka fyrir Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann vegna greinar sem ég skrifaði um Sjálfstæðisflokkinn og komandi prófkjör í tímaritið Þjóðmál.

Sveinn grípur til útúrsnúninga eins og menn gera gjarnan til varnar vondum málstað. Sveinn lætur eins og ég vegi að grasrót Sjálfstæðisflokksins í grein minni. Þetta er algjör umsnúningur. Ég veg að þeim sem gengu leynt og ljóst erinda Baugsmanna innan Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006. Það átti ekkert skylt við framboð mitt til borgarstjórnar árið 2002 heldur var gert vegna starfa minna sem dómsmálaráðherra og málaferlanna gegn Baugi á þessum árum. Ætlunin var að ryðja dómsmálaráðherra úr vegi af því að Baugsmenn töldu sig ekki hafa tök á honum.

Á meðan áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins viðurkenna ekki staðreyndir sem þessar og láta sem þeir átti sig ekki á hvernig leitast var við að grafa undan einstaklingum innan flokksins með hagsmuni fésýslumanna að leiðarljósi og kjósa þess í stað að tala um grasrót flokksins sýnist þörf á að ræða þessi mál frekar og ítarlegar í tengslum við ákveðna frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins en ég hef kosið að gera til þessa.

Fréttir af nýbirtri skýrslu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur sýna nauðsyn þess að fara betur ofan í þau mál öll. Ég vék lítillega að REI-málinu í grein minni í Þjóðmálum. Skora ég á áhugamenn um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu hans á líðandi stundu að lesa þetta hefti tímaritsins.