11.10.2012 23:55

Fimmtudagur 11. 10. 12

Kenningin um að stjórnarskráin 1944 hafi verið sett til bráðabirgða er fráleit og stenst enga skoðun. Þá eins og oft síðan voru stjórnmálamenn hins vegar sammála um að huga að endurbótum á stjórnarskránni og settu á laggirnar nefnd og síðan nefndir í því skyni. Áhersla var á að endurskoðunin yrði í sátt og náðist það markmið ekki fyrr en 1995 undir formennsku Geirs H. Haarde í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Þá var samþykktur nýr mannréttindakafli stjórnarskrárinnar.

Aðferðin sem Jóhanna Sigurðardóttir og Þorvaldur Gylfason hafa beitt við endurskoðun stjórnarskrárinnar er eins fjarri því sem menn vildu árið 1944 og unnt er að ímynda sér. Þau gangast bæði upp í að skapa ágreining og raunar ófrið um stjórnarskrána með þá blekkingu að leiðarljósi að slíkt sé nauðsynlegt vegna hruns bankanna haustið 2008. Atburðirnir þá snertu ekki stjórnarskrána á neinn hátt. Er raunar óskiljanlegt að þremenningarinnar sem sátu í rannsóknarnefnd alþingis skuli sitja þegjandi undir áróðri um að þau hafi hvatt til þess óskapnaðar sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði.

Í gær ræddi ég við Ágúst Þór Árnason frá lagadeild Háskólans á Akureyri í þætti mínum á ÍNN. Ágúst Þór sat í stjórnlaganefnd sem vann úr tillögum þjóðfundarins 2010. Hann og Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem einnig sat í stjórnlaganefnd eru eindregið á móti aðferðinni sem stjórnlagaráð og meirihluti alþingis hefur valið í stjórnarskrármálinu. Samtal okkar Ágústs Þórs verður endursýnt um helgina.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir að 250 milljóna króna skoðanakönnunin 20. október 2012 leiði til enn meiri óþarfa útgjalda skattgreiðenda er að segja nei við fyrstu spurningunni í könnuninni og láta hjá líða að svara öðrum spurningum.

Stjórnlagaráðstillögurnar eru svo gallaðar að alþingismenn treystu sér ekki til að taka afstöðu til þeirra. Jóhanna hefur falið fjórum lögfræðingum á kostnað forsætisráðuneytisins að reyna að finna einhvern botn í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er gert á bakvið tjöldin og unnið er að tillögugerð hvað sem líður niðurstöðu 250 milljón króna könnunarinnar. Jóhanna efnir aðeins til hennar til að kaupa sér frið gagnvart stjórnlagaráðsliðum. Friðkaup við þá eru stunduð á kostnað skattgreiðenda en markmiðið er hins vegar ekki að skapa frið um málið á alþingi sem á síðasta orðið. Þetta er dýrt spaug vegna stjórnarskrár sem dugar vel og verður aldrei breytt nema um það takist breið samstaða í anda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 1944.