8.10.2012 16:10

Mánudagur 08. 10. 12

Á dögunum vakti ég máls á því á Evrópuvaktinni að stuðningur Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við lögregluna í baráttu hennar við sífellt bíræfnari og skipulagðri glæpahópa væri næsta innan tómur af því að hann vildi ekki tryggja lögregluyfirvöldum nægilega víðtækar rannsóknarheimildir. Þegar ég beitti mér fyrir setningu laga um slíkar heimildir mætti það andstöðu Ögmundar og einnig þingmanna Samfylkingarinnar.

Vissulega eru víti til að varast í þessum efnum eins og öðrum en menn verða að hafa þrek til að vega og meta stöðuna fordómalaust. Ögmundur er ekki í þeirri stöðu. Hann telur sig hafa hlutverki að gegna við varðstöðu vegna þeirra sem stunda lögbrot í þágu einhvers pólitísks málstaðar.

Anders Berhing Breivik, fjöldamorðingi í Noregi, birti 1.500 bls. pólitískt skjal á netinu til skýringar á ódæðinu sem hann framdi 22. júlí 2011. Hann taldi sig vinna í þágu málstaðar sem í hans augum var og er til þess fallinn að skapa Evrópu bjarta framtíð og halda óvinum hennar víðs fjarri.

Norska öryggislögreglan, PST, hafði nasasjón af óeðlilegri háttsemi Breiviks en rakti málið ekki til enda. Árið 2007 var kynnt áætlun um öryggi stjórnarbygginga í Osló sem gerði ráð fyrir lokuðu svæði þar sem Breivik lagði bíl hlöðnum sprengiefni. Eftir á eru norsk yfirvöld harðlega ávítt fyrir að hafa ekki sýnt nægilega aðgæslu, hvorki PST né þeir sem áttu að tryggja öryggi stjórnarbygginga.

Skipti pólitískir fordómar meira máli en kaldar staðreyndir taka menn ekki mark á ábendingum um það sem gera þarf ef það brýtur í bága við fordómana. Þetta sannast á tali Ögmundar Jónassonar um að hann þurfi ekki að huga að staðreyndum eða reynslu annarra þjóða þegar hugað er að öryggi borgaranna og lögreglunnar.