14.10.2012 23:55

Sunnudagur 14. 10. 12

Sunnudagur 15. 10. 12

Lokatónleikar Skálholtskvartettsins í þessari ferð til Boston og New Haven voru í gærkvöldi, laugardag, í Gasson Hall í Boston College. Húsið er í stíl Oxford og Cambridge í Bretlandi, var reist fyrir um 100 árum og nýlega endurgert með stuðningi samtaka Bandaríkjamanna af írskum uppruna. Við fengum okkur kvöldverð fyrir tónleikana í stórri kantínu háskólans sem var þéttsetin nemendum.

Á tónleikunum fluttu þau kvartetta eftir Boccherini og Haydn fyrir hlé og síðan klarinettukvintett eftir Mozart eftir hlé en þá bættist Owen Watkins, Ástrali búsettur í Bandaríkjunum, í hópinn og lék á basset-klarinett sem hann hafði smíðað sjálfur enda hljóðfærasmiður auk þess að leika á blásturhljóðfæri. Um 200 manns sóttu tónleikana og fögnuðu listamönnunum innilega.

Um hádegisbilið í dag fórum við í Skinner-uppboðshúsið í hjarta Boston og fylgdumst með uppboði á strengjahljóðfærum og bogum fyrir þau. Síðan héldum við í Symphony Hall, tónleikahús Boston. Það var reist árið 1900 og var árið 1999 skráð sem sögulegt mannvirki Bandaríkjanna, U.S. National Historic Landmark, með þeirri umsögn að með vísan til hljómburðar sé húsið talið meðal hinna þriggja bestu í heimi og hið besta í Bandaríkjunum.

Handel and Haydn Society í Boston stóð fyrir tónleikunum í Symphony Hall í dag og hóf félagið 198. starfsár sitt með þeim. Flutt voru verk eftir Bach, svíta, kantötur og loks Magnificat. Húsið er glæsilegt, salurinn „skókassalaga“ og hljómburður með miklum ágætum.

Smíði þessa húss fyrir 112 árum og tæplega 200 ára starfsemi félags til heiðurs Händel og Haydn sýnir að í Boston hefur menning og áhugi á henni snemma fæst rætur hjá þeim sem hér numu land á sínum tíma, listhneigðin er einnig til marks um ríkidæmi. Háskólar eru hér fleiri og betri en á nokkrum stað á jarðarkringlunni.

Nú hefur þáttur minn með Ágústi Þór Árnasyni á ÍNN 10. október verið settur á netið og má sjá hann hér.

Því miður hafa þeir á ÍNN ekki fært inn þætti mína í september á netið. Geri þeir það vek ég athygli á því.