Þriðjudagur 23. 10. 12
Í umræðum um breytingar á stjórnarskránni er talað á þann veg að þingmenn hafi í tæp sjötíu ár skort vilja til að endurskoða hana. Þetta er að sjálfsögðu rangt eins og svo margt sem talsmenn stjórnlagaráðs og Jóhönnu Sigurðardóttur segja um þetta mál. Þess má til dæmis geta að Gunnar Thoroddsen hóf þátttöku í stjórnmálum að nýju á áttunda áratugnum með það sem baráttumál að breyta stjórnarskránni. Hann samdi frumvarp að nýrri stjórnarskrá, muni ég rétt. Málið hlaut ekki framgang.
Vandinn er ekki sá að margir hafi ekki haft skoðanir á efni í nýja stjórnarskrá. Vandinn hefur verið að skapa nógu víðtæka samstöðu um haldgóðan texta til að þingmenn samþykktu hann. Vinnubrögðin í stjórnlagaráði stangast á við vönduð vinnubrögð í stjórnlaganefndum fyrri ára. Þar hefði aldrei neinum komið til hugar að efna til einskonar bögglauppboðs við smíði stjórnarskrár og setja afurðina síðan í gám, flytja hann til alþingis og síðan þaðan út á víðavang, nefna nokkur atriði sem talið væri að félli að skoðun flestra og efna til skoðanakönnunar á kostnað skattgreiðenda fyrir 250 til 300 milljónir króna og láta síðan rýna í innihaldið.
Eftir að skoðanakönnunni lauk beindist athygli að nefnd fjögurra lögfræðinga sem vinnur með leynd að skoðun á tillögunum sem spurt var um í könnuninni. Kynnt var í sama mund og niðurstöður könnunarinnar voru kynntar að lögfræðingarnir myndu leggja fram skýrslu eftir tvær vikur. Í dag var sagt að þeir þyrftu lengri tíma. Þessa vinnu hafa menn hingað til unnið samhliða smíði tillagna að texta í stjórnarskrá. Þeir hafa ekki stofnað til rýnivinnu eftir að tillögur að nýrri stjórnarskrá hafa verið kynntar. Rýnivinnan hefur verið unnin samhliða smíði textans og hann ekki kynntur fyrr en frumkröfum um góð vinnubrögð hefur verið fullnægt.
Að þessu sinni er öllu snúið á hvolf og síðan ætlast til að þingmenn gleypi það sem að þeim er rétt. Í samræmi við öfugmælin í þessu öllu saman segir síðan Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að eina leiðin fyrir alþingi til að auka virðingu sína sé að samþykkja textann á mettíma.