22.10.2012 23:05

Mánudagur 22. 10. 12

Lokakappræðurnar milli bandarísku forsetaefnanna er í kvöld eða nótt á íslenskan tíma. Nú verð ég fjarri góðu gamni enda kominn heim frá Boston. Það er bót í máli að auðvelt er að nálgast efnið á netinu hvenær sem er. Þjónustan sem felst í aðgangi að sjónvarpsefni þegar manni sjálfum hentar er til mikilla bóta. Ég gat til dæmis skoðað tvo síðustu þættina af Brúnni eftir heimkomu sem áskrifandi að sjónvarpsefni hjá Skjánum. Mér er því ekkert að vanbúnaði að horfa á síðasta þáttinn annað kvöld.

Allt fram að annarri lotu kappræðnanna hafði Barack Obama yfirburði gagnvart Mitt Romney þegar spurt var um getu þeirra á sviði utanríkismála. Eftir aðra lotuna tók Romney að saxa á forskot Obama þar. Ræður mestu hve illa Bandaríkjastjórn hefur haldið á málum vegna hryðjuverkaárásinnar á bandarísku ræðismannsskrifstofuna í Benghazi í Líbíu. Embættismenn hafa orðið margsaga og það varð Obama ekki til bjargar að stjórnandinn í annarri lotunni rétti honum hjálparhönd.

Því fer víðs fjarri að nokkur mynd sé gefin af andrúmsloftinu í bandarísku kosningunum í íslenskum fjölmiðlum. Erlendar fréttir sjónvarpsstöðvanna eru hvorki fugl né fiskur og þar virðist enginn áhugi á að dýpka skilning áhorfenda á málefnum líðandi stundar. Er raunar óskiljanlegt hve erlendar fréttir eru á miklu undanhaldi í fjölmiðlum landsins.  Fyrir því er hefð allt frá því á 19. öld að erlendir viðburðir settu sterkan svip á þá miðla sem fluttu landsmönnum fréttir, nægir þar að benda á Skírni og Almanak Þjóðvinafélagsins.

Áhugaleysi fjölmiðla á erlendum fréttum leiðir til þess að þekking fjölmiðlamanna á því sem gerist í umheiminum minnkar, þeir glata hæfni til að leita uppi fréttir, leggja mat á hvaða atburðir erlendis hafa skírskotun til þess sem gerist hér á landi eða snerta íslenska hagsmuni og aldarlöng hefð verður að engu. Dapurleg þróun.