Laugardagur 13. 10. 12
Við skruppum inn til Boston með lest úr úthverfinu þar sem við búum. Það er auðvelt að ferðast héðan inn í hjarta borgarinnar.
Síðdegis æfði Skálholtskvartettinn og nú hefur kvikmyndagerðarmaður slegist í hópinn, Brendan, frá Portland í Oregon-ríki sem flaug hingað til að halda áfram við gerð heimildarmyndar um Jaap Schröder, fiðluleikara og frumkvöðuls Skálholtskvartettsins.
Klukkan 18.30 hófst Master Class í kammermúsik í Boston College Music Department. Nemendur við skólann léku og Jaap leiðbeindi þeim. Var mjög fróðlegt að hlusta á hann skýra fyrir nemendunum hvað mætti betur fara. Félagar í Skálholtskvartettinum, Rut, Svava Bernharðsdóttir og Sigurður Halldórsson tóku einnig þátt í kennslunni með Jaap.
Um klukkan 20.00 lék síðan Skálholtskvartettinn brot úr tveimur kvartettum eftir Purcell og Schübert fyrir nemendur og kennara tónlistardeildarinnar.
Jaap sagði frá hvernig áhugi hans á flutningi kvartetta kom til sögunnar með kynnum sínum af tónlist 17., 18. og 19. aldar. Hann stofnaði á sinum tíma Qudrao Amsterdam til að flytja kvartetta frá þessum tíma og færa flutninginn sem næst upprunalegri mynd í ljósi tónlistarsögunnar með athygli á að tónskáld hefðu aldrei heyrt tónlist seinni tíma manna þegar þeir sömdu tónverk sín og þess vegna verði að líta til baka þegar menn reyni að átta sig á hvernig tónskáldið hafi litið á eigin verk og flutning þeirra. Þá leiddi Jaap Quartetto Estetrhazy og síðan Smithsonian String Quartet. Ef farið er inn á Amazon má sjá hve mikið hefur verið hljóðritað af flutningi þessara kvartetta. Hann stofnaði einnig Concerto Amsterdam sem var brautryðjandi í flutningi verka með barokk-hljóðfærum.
Þau sem mynda Skálholtskvartettinn léku fyrst saman 1997. Jaap hefur verið fastur gestur á Skálholtstónleiknum síðan 1993 og hann gaf árið 2006 stóran hluta tónlistarbókasafns síns til Skálholts. Safninu hefur því miður ekki enn verið búinn sá samastaður sem hæfir.