7.10.2012 14:20

Sunnudagur 07. 10. 12

Í færslu í dagbókina í gær gat ég þess að í Peets-kaffihúsi í Newton Centre, útborg Boston, hefði ég séð sérbakað vínarbrauð kallað Icelandic-Danish. Það kom mér á óvart því að til þessa hafði ég aðeins séð slík vínarbrauð nefnd Danish í Bandaríkjunum. Velti ég fyrir mér hvort íslenskur bakari væri á næstu grösum. Mér þætti brauðið líkt og ég fengi í Bakarameistaranum í nágrenni mínu í Suðurveri í Hlíðunum.

Glöggur lesandi síðu minnar sendi mér þennan tengil. Þarna kemur fram að fyrir tæpum 20 árum hafi íslenskur bakari, Ágúst Felix Gunnarsson, lærður í Bakarameistaranum, stofnað bakarí í Cambridge hér við Boston. Tæpum tveimur árum eftir að fréttin um nýja bakaríið birtist í Morgunblaðinu hitti Karl Blöndal, nú aðstoðarritstjóri blaðsins, sem þá var við nám í Boston Ágúst Felix og birti við hann viðtal í blaðinu sem sýndi að bakarinn hafði slegið í gegn sjá hér.

Ég þarf ekki frekari sannanir. Áhrif Ágústs Felix birtast í kynningu Peets-kaffihússins á sérbökuðum vínarbrauðum.