30.10.2012 22:00

Þriðjudagur 30. 10. 12

Rúmum 20 árum eftir lyktir kalda stríðsins stíga Svíar og Finnar til samstarfs við NATO á norðurslóðum. Þeir gera það með lofrýmiseftirliti sem hafið var af NATO að ósk Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins héðan í september 2006. Í júlí 2007 kynnti NATO ákvörðun sína um að verða við óskum íslenskra stjórnvalda um að hér yrðu reglulega orrustuþotur undir merki NATO. Frakkar sendu fyrstu flugsveitina vorið 2008. Um svipað leyti fólu utanríkisráðherrar  Norðurlanda Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs, að semja skýrslu um framtíðarsamstarf Norðurlanda í öryggismálum. Hann skilaði tillögum í febrúar 2009 og vakti þar meðal annars máls á að Finnar og Svíar tækju að sér það verkefni sem þeir hafa nú ákveðið að sinna.

Ég hef sótt nokkra fundi síðustu misseri þar sem Norðurlandamenn hafa rætt öryggismál sín. Í fyrstu virtist mörgum tillaga Stoltenbergs um að Svíar og Finnar tækju að sér NATO-verkefni á Íslandi fjarlæg ef ekki fjarstæðukennd. Ég er sannfærður um að ákvörðunin sem kynnt var í dag hefði ekki verið tekin nema vegna þess að hægrisinnaðir forsætisráðherrar sitja í Finnlandi og Svíþjóð en innan flokka þeirra eru margir áhugasamir um aðild þjóðanna að NATO. Þær kunna að fara inn í bandalagið um Ísland.

Hið hlálega við þessa atburðarás er að á Íslandi situr ríkisstjórn þar sem að minnsta kosti helmingur ráðherranna, vinstri-grænir, hafa horn í síðu loftrýmiseftirlitsins eða eru beinlínis andvígir því. Þeir vita hins vegar sem er að kæmi málið til kasta alþingis yrði meirihluti þingmanna til að styðja þennan þátt í gæslu öryggis þjóðarinnar.

Þá ber að hafa í huga að Svíar og Finnar eru aðilar að Norðurskautsráðinu. Með flugi héðan öðlast flugmenn þeirra þjálfun í samstarfi við vestrænar þjóðir innan ráðsins sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Íshafi. Ekki kæmi á óvart að Rússar lýstu ólund vegna áformanna um að sænskar og finnskar orrustuþotur athafni sig frá Íslandi.