2.10.2012

Landsdómsmálið smánarblettur Jóhönnu

Óli Björn Kárason gerir merkilega úttekt á stjórnmálaferli Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra, á vefsíðu sinni T24 í tilefni af ákvörðun Jóhönnu um að draga sig í hlé og hætta stjórnmálaafskiptum. Ég sagði af þessu tilefni að með brottför Jóhönnu yrðu þáttaskil á alþingi því að hún hefði með framgöngu sinni þar ýtt mjög undir deilur og ágreining. Hið einkennilega er að hún hélt því áfram eftir að hún varð forsætisráðherra. Hefur það spillt framgangi margra mála og orðið til að gjaldfella alþingi enn frekar í huga almennings. Hafa þeir þingmenn því ekki úr háum söðli að detta sem telja sig hafa efni á að ráðast á ríkisendurskoðanda og ríkisendurskoðun og segja ekki unnt að treysta henni. Yrði sami kvarði notaður á gagnrýnendur ríkisendurskoðanda á þingi og þeir nota á hann ætti stór hópur þingmanna að víkja sæti, ekki aðeins tímabundið heldur fyrir fullt og allt. Ef til vill sjá kjósendur til þess í komandi kosningum.

Þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki stutt ákæruna gegn Geir H. Haarde verður landsdómsmálið gegn honum meirihlutanum sem staðið hefur að ríkisstjórn hennar til ævarandi skammar þegar rætt verður um lýðræðislega stjórnarhætti hér á landi.

Hinn 25. september 2012 lagði hollenski Pieter Omtzigt, kristilegur demókrati, fram „information memorandum“ framvinduskýrslu (10 bls.) í laganefnd þings Evrópuráðsins um rannsókn sína á landsdómsmálinu gegn Geir. Þingmaðurinn var hér á landi 6. til 9. maí 2012 í umboði Evrópuráðsþingsins í Strassborg sem gegnir lýðræðislegu eftirlitshlutverki á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og hefur því sérhæft sig í rannsóknum á framkvæmd lýðræðislega stjórnarhátta.

Ég tók á sínum tíma þátt í störfum Evrópuráðsþingsins og þar á meðal laganefndarinnar. Kom mér aldrei til hugar að Ísland yrði einn góðan veðurdag þar til meðferðar á þann hátt sem fram kemur í framvinduskýrslu Omtzigts sem sýnir hvert stefnir í rannsókn hans þar sem hann nýtur meðal annars ráðgjafar tveggja lögfræðinga nefndarinnar.

Laganefndin er ein virtasta nefnd Evrópuráðsþingsins og að hljóta neikvæða útreið innan hennar er ekki kappsmál neinnar ríkisstjórnar eða neins meirihluta á þjóðþingi. Af framvinduskýrslunni verður ráðið að allt stefni í harðan dóm yfir þingmönnunum sem greiddu atkvæði með ákærunni á hendur Geir. Þá leynir Omtzigt ekki heldur undrun sinni yfir viðbrögðum saksóknara í málinu þegar þingmaðurinn spurði hvað Geir hefði átt að gera við  aðstæðurnar sem sköpuðust hér haustið 2008 og svarið var „eitthvað“ eða „hvað sem er“. Hollenski þingmaðurinn telur að landsdómurum hafi þótt þeir yrðu að sýna ákæruvaldinu lit í dómi sínum og því fundið „eitthvað“ til að telja saknæmt. Það hafi verið að sakfella án refsingar fyrir að ræða ekki hættuástand í bankakerfinu á ríkisstjórnarfundum. Omtzigt segir að þetta megi gera undir liðnum „önnur mál“ á dagskrá fundanna, „einkum í málum á borð við yfirvofandi bankakrísu þegar góð rök eru fyrir því að ekki sé skýrt frá því að rætt hafi verið um hættuna þegar það er ekki tímabært“, þessi rök eru reist á heilbrigðri skynsemi en landsdómur hafði hana að engu að mati Omtzigts.

Hollenski þingmaðurinn segir í skýrslu sinni að hann sé hagfræðingur og sem slíkur sé hann ekki sannfærður um að stefnan sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde fylgdi hafi endilega verið svo slæm. Markaðshyggjustefnan sem fylgt hafi verið á tíunda áratugnum hafi leitt til meiri velsældar á Íslandi en nokkru sinni í sögu lands og þjóðar sem fram til þess tíma hafi aðeins treyst á fiskveiðar. Eftir að allt fór í óefni hafi ríkisstjórnin neitað að þjóðnýta hina föllnu banka og færa þannig allar skuldir þeirra á herðar skattgreiðenda (eins og ríkisstjórnin á Írlandi hafi til dæmis gert) því kunni til lengri tíma að fylgja minna tjón en að láta bankana verða gjaldþrota og nota skattfé sem annars hefði runnið til að bjarga bönkunum til að draga úr högginu fyrir sparifjáreigendur og grunnþætti efnahagslífsins.

Framvinduskýrslunni sem lesa má hér á ensku  lýkur á þessum orðum:

„Að lokum vil ég segja að ég hefði af því verulegar áhyggjur ef við samþykktum ákæruna og dóminn yfir Geir H. Haarde sem fordæmi mættum við vænta bylgju af ákærum á hendur mörgum stjórnmálamönnum í mörgum löndum – ef og þegar skattgreiðendur í „norðlægum“ löndum evru-svæðisins verða að borga reikninginn vegna hinna risavöxnu björgunaraðgerða í þágu „suðlægari“ landa og/ef fólkið í „suðlægari“ löndunum áttar sig á því hve alvarlegur vandi þeirra er í raun vegna margra ára óábyrgrar ríkisfjármálastefnu ríkisstjórna þeirra. Ég er  þeirrar skoðunar að kalla eigi ríkisstjórnir landa okkar til ábyrgðar á afleiðingum þessarar stefnu. Hins vegar á ekki að láta einstaka stjórnmálamenn sæta ákæru í refsimáli þótt athafnir þeirra falli utan almenns pólitísks ramma við töku ákvarðana. Slíkar ákvarðanir ber einungis að dæma í lýðræðislegum kosningum.“

Skýrsla hollenska þingmannsins á ekki aðeins erindi inn á þing Evrópuráðsins, óhjákvæmilegt er að íslenska hana og kynna hana rækilega fyrir íslensku þjóðinni til að hún átti sig á hvernig erlendir stjórnmálamenn líta á framvindu mála hér eftir að bankarnir fóru á hliðina og við tók ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með meirihluta sem studdi ákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Þrír íslenskir þingmenn sitja á þingi Evrópuráðsins Þuríður Backman (VG), formaður nefndarinnar, Mörður Árnason (SF) varaformaður, og Birkir Jón Jónsson (F). Þau greiddu öll atkvæði með ákærunni á hendur Geir H. Haarde. Þuríður á sæti í laganefnd þingsins og hlýtur að taka til varnar fyrir þingmeirihlutann og andmæla sjónarmiðum hollenska þingmannsins.

Visir.is leitar álits Marðar Árnasonar á framvinduskýrslu hollenska þingmannsins og segir frá því þriðjudaginn 2. október. Þar segir Mörður að landsdómur sé „gallað tæki“ og ekki komi á óvart að „það sé skoðað“.  Mörður grípur þarna til útúrsnúnings. Laganefnd Evrópuráðsþingsins leggur ekki mat á landsdóm heldur ákæruna á hendur Geir. Omtzigt ber málið á hendur Geir saman við landsdómsmálið í Danmörku gegn Erik Ninn-Hansen og telur mikinn mun á málunum og finnur ekki að því að Ninn-Hansen hafi verið ákærður.

Engu er líkara en Mörður hafi ekki lesið framvinduskýrsluna því að hann segir við blaðamann visir.is: „Þannig mætti til að mynda spyrja um Tamíla-málið." Hollenski þingmaðurinn tekur einmitt afstöðu til þess í skýrslu sinni. Þá segir:

„Mörður segir aðspurður samþykkt málsins á Evrópuráðsþinginu ekki hafa nein réttarfarsáhrif [hann lætur hjá líða hinn pólitíska álitshnekki sem við öllum blasir]. Mörður áréttar hinsvegar, að ef plaggið verður samþykkt með þeirri gagnrýni sem það inniheldur í dag, að það sé sjálfsagt að skoða þá gagnrýni, enda þegar verið að endurskoða ráðherralögin, og lög um landsdóminn.“

Enn kýs Mörður að skauta framhjá kjarna málsins í skýrslunni fyrir laganefndinni: að það hafi verið með öllu ástæðulaust að ákæra Geir H. Haarde. Endurskoðun á ráðherralögum eða landsdómslögum er ekki efni þessa máls heldur beiting laganna. Loks gefur Mörður þá furðulegu skýringu á rannsókninni á ákærunni á hendur Geir á vegum Evrópuráðsþingsins að til hennar sé stofnað „ svo Úkraína standi ekki eitt þegar Evrópuráðsþingið gagnrýnir landið fyrir pólitísk réttarhöld. Mörður segir þó ekki hægt að leggja þetta að jöfnu við Landsdóminn hér á landi“.

Að láta sér til hugar koma að laganefnd Evrópuráðsþingsins geri mann út af örkinni vegna pólitískrar ákæru á hendur einum fyrrverandi forsætisráðherra af því að pólitískt sakamál á hendur öðrum fyrrverandi forsætisráðherra í öðru landi er til athugunar er fráleitt. Mörður hefur heldur ekkert fyrir sér um þetta en eigin „tilfinningu“.

Ég minntist í upphafi á hina ítarlegu úttekt Óla Björns Kárasonar á stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Í upphafi seinni greinar sinnar um Jóhönnu segir hann:

„Á síðustu misserum hafa komið í ljós brestir í fylkingu jafnaðarmanna. Óánægja hefur farið vaxandi með Jóhönnu sem formann Samfylkingarinnar og sem forsætisráðherra. Í slíkri stöðu er mikilvægt fyrir forystumanninn að þétta raðirnar og fátt er betur til þess fallið en að finna sameiginlegan óvin.

Það er líklega þess vegna sem Jóhanna barðist gegn tillögu um að ákæra á hendur Geir H. Haarde yrði dregin til baka, þrátt fyrir að hún hafi greitt atkvæði gegn ákærunni í september 2010. Í huga Jóhönnu var tillagan pólitísk og til þess fallin að reyna að kljúfa Samfylkinga.“

Þetta er rétt hjá Óla Birni, Jóhanna útmálar Sjálfstæðisflokkinn sem hina illa óvin og hún gat ekki einu sinni setið á sér þegar rætt var við hana í sjónvarpi um brotthvarf hennar. Smekkleysið ríkir fram á síðasta dag og heiftin sýnir enn pólitískt eðli ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Forsætisráðherra sem greiddi ekki atkvæði með ákæru á hendur Geir kom á hinn bóginn í veg fyrir að ákæran yrði dregin til baka af því að hún lét stjórnast af flokkspólitískri heift. Það hefði rétt verulega hlut Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnmálasögunni hefði hún stöðvað landsdómsmálið. Hún gerði það ekki. Jóhanna situr uppi með skömmina og allir sem stóðu að málinu með henni. Ísland fær á sig stimpil sem ríki þar sem lýðræðislegar leikreglur eru ekki í heiðri hafðar.