20.10.2012 23:40

Laugardagur 20. 10. 12

Fróðlegt var að fylgjast með því hvernig viðmið fréttastofu ríkisútvarpsins og annarra vegna kjörsóknar í skoðanakönnunni um tillögur stjórnlagaráðs breyttust eftir því sem á daginn leið og í ljós kom að hún yrði mjög dræm. Undir lokin var tekið til við að bera kjörsóknina saman við stjórnlagaþingskosningarnar 27. nóvember 2010 sem hæstiréttur ógilti með ákvörðun 25. janúar 2011.Þá var hún aðeins 36,77% og því lægsta tala sem fréttamenn gátu fundið til að hlustendum þætti þátttakan í könnuninni ekki gjörsamlega ömurleg.

Stefán Ólafsson prófessor fann annað viðmið: þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss. Þar er þátttakan oft milli 30% og 40%. Hefur verið spurt um nýja stjórnarskrá í Sviss? Er Stefán þeirrar skoðunar að andlag kannana af þessu tagi skipti ekki máli? Þá er alveg óþarfi að leita til Sviss til samanburðar. Hvers vegna nefnir Stefán ekki þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave þar sem kosningaþátttakan var mun meiri en núna - eða er Stefán komin á þá skoðun að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða heldur skoðanakönnun?

Hluti af spuna stjórnlagaráðsliða undanfarið hefur verið að ekki skipti neinu máli hve margir taki þátt í kosningunni. Þetta er fráleit skoðun en svo sem í samræmi við annað sem frá þessu fólki hefur komið. Stjórnarskrárbrölt Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga hefur nú kostað skattgreiðendur 1,3 milljarða króna. Fráleitt er að halda fram að minni en 50% þátttaka í skoðanakönnun sem stofnað er til með slíkum tilkostnaði skipti ekki neinu. Þá er látið í veðri vaka að dræma þátttöku megi rekja til þess að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki skipt sér af könnuninni. Þessi skoðun stenst ekki gagnrýni frekar en annað frá talsmönnum stjórnlagaráðsliða. Flokksformenn hafa hvatt fólk í þessu máli og Samfylkingin bauð upp á kaffi í tilefni dagsins til að ýta undir kjörsókn.

Hin dræma þátttaka segir aðeins eitt: Spuni stjórnlagaráðs og alþingismanna sem stóðu að þessari marklausu aðgerð höfðaði einfaldlega ekki almennt til fólks.