18.10.2012 23:55

Fimmtudagur 18. 10. 12

Lokadaginn í Boston notuðum við til að skoða stærsta listasafn borgarinnar Museum of Fine Arts. Glæsilegt safn. Þar er sérstök deild helguð frelsishetjunum frá Boston og listmálaranum Copley sem borgin heiðrar á þann veg að eitt virðulegasta torg hennar er nefnt eftir honum.

Þetta er skrifað á flugvellinum í bið eftir að Icelandair vélin leggi af stað heim á leið. Hið einkennilega gerðist þegar við komum á völlinn að bókun okkar á sætum sem gerð hafði verið við kaup miðanna var sögð ógild og urðum við að sætta okkur við sæti í andstöðu við óskir okkar. Til hvers býður Icelandair farþegum að bóka sæti ef bókunin reynist marklaus þegar á hólminn er komið? Engin viðvörun gefin og raunar engin skýring því að við innritunina sagði stúlkan að hún réði engu um þetta. Hún gæti ekki gert annað en það sem tölvan segði henni að gera.