24.10.2012 21:45

Miðvikudagur 24. 10. 12

Í dag ræddi ég við sr. Halldór Gunnarsson í Holti í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um skoðanakönnunina vegna stjórnarskrárinnar. Hann fagnaði ákvæðinu um þjóðkirkjuna. Þá ræddum við einnig um stjórnmálaástandið en sr. Halldór býður sig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þáttinn má sjá næst kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar, flutti erindi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í dag um Hörpuna, stöðu nú og framtíð. Frá því að húsið var opnað hafa 1,6 milljónir manna komið í það, verðlaunin og viðurkenningarnar sem húsið hefur hlotið eru margar. Bókun ráðstefnuþjónustu á árinu 2013 er margföld miðað við það sem verið hefur. Við starfsemi hússins blasir ekkert annað en vöxtur. Vegna óheyrilegra fasteignagjalda verður leitað til til dómstóla. Þegar ég kom að undirbúningi að smíði hússins kom mér aldrei til hugar að skattar til Reykjavíkurborgar mundu standa rekstri hússins fyrir þrifum enda eru borg og ríki bakhjarlar hússins.

Nýlega ræddi Charlie Rose, frægi bandaríski sjónvarpsmaðurinn, við hljómsveitarstjórann Riccardo Muti, aðalstjórnanda Chicago Symphony Orchestra. Muti sagði þrjár sinfóníuhljómsveitir bestar í heimi, tvær við hliðina á hljómsveitinni í Chicago: Berliner Philharmoniker og Wiener Philharmoniker. Ein þessara hljómsveita, sú í Berlín sem Simon Rattle stjórnar verður hér á landi 20. nóvember. Hún hefði aldrei ákveðið að leggja leið sína til landsins nema vegna Eldborgar – tónlistarsalarins í Hörpu sem tímaritið Grammophone telur meðal 10 bestu tónlistasalar í veröldinni á nýrri öld.

Við blasir að ný vídd hefur bæst við íslenskt samfélag með Hörpu og gert þeim sem hér búa að njóta hluta sem aldrei hafa verið í boði áður.