2.10.2012 21:54

Þriðjudagur 02. 10. 12

Margt bendir til að hér átti menn sig ekki á hve ömurlegt er fyrir Ísland og íslenska stjórnarhætti að koma til athugunar á vegum laganefndar Evrópuráðsþingsins vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta og misnotkunar á dómskerfinu í þágu flokkspólitískra hagsmuna. Þetta ætti ekki síst að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur slegið um sig heima og erlendis sem fyrirmynd á öllum sviðum – gerði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra það ekki síðast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna? Við mikla hrifningu konunnar sem varð sér að athlægi og raunar stórskammar þegar hún birtist í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið haustið 2008.

Í framvinduskýrslu hollensks þingmanns um landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde sem lögð var fram í laganefnd Evrópuráðsþingsins 25. september er lýst nornaveiðum á Íslandi af hálfu meirihluta þingmanna eins og ég segi frá í pistli hér á síðunni í dag. Þrír fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu, Birkir Jón Jónsson (F), Mörður Árnason (SF) og Þuríður Backman (VG) greiddu öll atkvæði með ákærunni á hendur Geir. Þau hljóta nú að reyna að hnekkja áliti hollenska þingmannsins á þeim óheillagjörningi. Mörður hefur þegar hafið spuna um framvinduskýrsluna á heimavelli með útúrsnúningum og rangfærslum.

Sama dag og sagt er frá þessari alvarlegu gagnrýni á stjórnarhætti meirihlutans að baki Jóhönnu Sigurðardóttur skrifar Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, eitthvert rugl um STASI og Sjálfstæðisflokkinn. Fellur það að siðareglum stjórnarráðsins að menn þar stundi slík ritstörf á kostnað skattgreiðenda? Jóhann er starfsmaður forsætisráðuneytisins, miðstöðvar siðsemi í stjórnarráðinu. Líta menn þar aðeins langt yfir skammt?