29.10.2012 21:50

Mánudagur 29. 10. 12

Eftir að Páll Magnússon útvarpsstjóri hafði ráðist af miklu dómgreindarleysi á Davíð Oddsson fyrir að leggja til að skattgreiðendur fengju að velja hvort þeir létu nefskattinn renna til ríkisútvarpsins eða eitthvað annað sneri Páll sér að Baugsmiðlunum, eignarhaldi þeirra og fjármögnun og spurði hvort þingmenn ættu Jóni Ásgeiri Jóhannessyni einhverja skuld að gjalda. Viðbrögðin létu ekki á sér standa úr ranni Baugsmanna. Ari Edwald, forstjóri Baugsmiðlanna gömlu, svaraði af miklum þunga og hneykslan. Hann sakaði Pál um karlrembu og kvenfyrirlitningu – Jón Ásgeir ætti ekki miðlana heldur Ingibjörg, eiginkona hans!

Dansi fjölmiðlarnir sem þessir tveir menn stjórna eftir höfðinu er ekki von á góðu.

Jóhanna Sigurðardóttir skammaði Sjálfstæðisflokkinn blóðugum skömmum á laugardaginn fyrir að berjast fyrir niðurskurðarstefnu í ríkisfjármálum. Í dag sat hún fund í Helsinki með ráðherrum frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum þar sem lýst var stuðningi við niðurskurðarstefnu ESB og skilningi á kröfum Angelu Merkel Þýskalandskanslara á hendur Grikkjum í nafni þýskra skattgreiðenda. Sjá hér.

Enn vakna spurningar um samhengið í ræðum Jóhönnu eða málflutningi hennar almennt. Þar er ekki heil brú þegar grannt er skoðað hvort sem rætt er um efnahagsmál, stjórnarskrármál eða ESB-aðildarumsókn.