17.10.2012 23:55

Miðvikudagur 17. 10. 12

Það var hressandi að fara um Boston og Harvard í dag og fræðast enn meira um byltingarsögu Bandaríkjanna og stofnun þeirra. Hugmyndafræðin var reist á að gera annað og betra en í gömlu Evrópu. Í Evrópu hefur verið reynt að gera eitthvað nýtt eftir tvennar heimsstyrjaldir, skilin við hið gamla eru þó ekki nógu skýr og verða það ekki vegna sögulegra róta sem ekki þvældust fyrir mönnum í Bandaríkjunum. Þar tókust menn á um hugsjónir en ekki sögulega arfleifð. Evrópusambandið verður aldrei að Bandaríkjum Evrópu, þess í stað gliðnar það.

Össur Skarphéðinsson hætti að halda úti vefsíðu þegar hann varð utanríkisráðherra. Þess í stað skrifar hann hól um sjálfan sig á Eyjuna/Pressuna. Ég hef birt furðusögur um Össur á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér og hér.

Össur segir þessi skrif „skapvonskukast Björns Bjarnasonar“. Ekkert er fjær mér á skemmtilegu ferðalagi í Boston og nágrenni. Furðusögurnar um Össur eru öllum gleðiauki.  Össur segir til dæmis í Eyjupistli í dag sem birtur er nafnlaus á ábyrgð Björns Inga Hrafnssonar, hann var einu sinni í Framsóknarflokknum:

 „Staðreyndin er sú, að maður verður að viðurkenna það hvort sem maður styður Össur eða ekki, að hann kemur hlutunum í verk, og enginn maður á Íslandi fer eins létt með að teikna hringi í kringum íhaldið, sem nær engu taki á honum. Og Björn er að sjá það teiknast upp að Össur mun verða langefstur í Reykjavík, getur hirt formennsku í Samfylkingunni ef hann vill, og gæti farið langt með að tryggja að Engeyjarættin verði önnur fjögur ár, ef ekki átta, utan ríkisstjórnar.“

Enginn skrifar af svo mikilli aðdáun á sjálfum sér en einmitt Össur. Spurningin er þessi: Ætla kjósendur Samfylkingarinnar að fá slíkan oflátung til forystu í stað eintrjáningsins Jóhönnu? Það er annað hvort í ökkla eða eyra.