28.10.2012 20:45

Sunnudagur 28. 10. 12

Jóhanna Sigurðardóttir ræðst á Sjálfstæðisflokkinn fyrir árás á velferðarkerfið vegna hvatninga hans um aðhald í ríkisútgjöldum. Í sömu ræðu ákallar hún Evrópusambandið og telur Íslendingum helst til bjargar að ganga í það. Hér er um þverstæðu að ræða. Hvergi er lögð eins mikil áhersla á niðurskurð ríkisútgjalda og innan Evrópusambandsins. Í dag bárust fréttir um að Grikkir yrðu enn að grípa til 150 sparnaðarráða til að fullnægja kröfum ESB. Efnt er til mótmæla víða innan evru-svæðisins gegn aðhaldskröfum ESB og nú er atvinnuleysi meira en 25% á Spáni.

Stundum má ætla að ræðusmiðir Jóhönnu lesi ekki ræðutextann í heild heldur skrifi hver sinn kafla og hún lesi síðan það sem að henni er rétt. Skuldir Íslands eru um 100% af landsframleiðslu ef ekki hærri. Um þetta ríkir leynd eins og svo margt annað í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ríki með svo háar skuldir eru tekin í gjörgæslu Brusselmanna sem krefja ríkisstjórnir um aðhald og hóta sektum sé ekki farið að kröfum þeirra. Innan ESB er á döfinni að skipa sérstakan ríkisfjármálatilsjónarmann í framkvæmdastjórn ESB til að sauma að ríkisstjórnum á borð við þá sem Jóhanna leiðir.

Þegar grannt er skoðað er ekki heil brú í gagnrýni Jóhönnu á þá hér innan lands sem vilja sýna meiri aðgæslu en hún og stjórn hennar í ríkisfjármálum. Hún hefur alls ekki nein efni á að ráðast á sjálfstæðismenn fyrir ríkisfjármálastefnu þeirra og hrópa síðan á ESB sér til hjálpar. Sjálfstæðismenn hafa ekki boðað neitt í líkingu við það sem krafist er af Brusselmönnum. Jóhanna ætti að lesa ræðuna sína aftur og taka í hnappadrambið á þeim sem sömdu hana.