5.10.2012 23:50

Föstudagur 05. 10. 12

Flugum klukkan 17.00 frá Keflavíkurflugvelli með Icelandair til Logan-vallar við Boston og lentum nákvæmlega á áætlun kl. 18.30 að staðartíma. Skálholtskvartettinn (Rut, Svava Bernharðsdóttir (víóla), Sigurður Halldórsson (selló) og Jaap Schröder (fiðla)) efnir til tónleika í Boston og New Haven næstu daga auk þess sem þau fara i upptökur. Ég fylgi með eins og svo oft áður. Jaap flaug daginn áður frá Amsterdam til Boston.

Við tókum stóran leigubíl frá flugvellinum, sellóið þarf sæti eins og maður bæði í flugvélum og bílum, og ókum í Newton, kyrrlátt úthverfi Boston, í „bed og breakfast“ gistiheimili sem gömul hjón reka í stóru húsi. Hann er fyrrverandi prófessor í þjóðhagfræði við Boston College sem er í um 25 mínútna göngufæri héðan, hún er fyrrverandi listdansmær og kennari. Við sjáum í herberginu þar sem við gistum, líklega gamla hjónaherberginu þeirra, að þau hafa verið gift í 61 ár.

Jaap hafði fundið gistingu hjá þeim að tilstuðlan vina sinna. Nú á eftir að reyna á hvernig samgöngum er háttað við aðra borgarhluta. Þau eru nettengd en bæði með kapli. Þau vissu ekki hvað vakti fyrir mér þegar ég spuði um númer á routernum (beininum) svo að ég gæti tengst honum þráðlaust. Ég fór með gamla prófessornum að beininum. Vinnustofa hans er í kjallara þessa stóra húss og þar sefur hann líka. Þarna ægir öllu saman en eftir að prófessorinn hætti að kenna og skrifa fræðibækur lagði hann sig fram sem myndhöggvari og listmálari auk þess notar hann tölvuforrit kennt við Sibelíus til að semja tónverk, nýlega (9. september) var óratóría eftir hann frumflutt.

Ég fann routerinn eða beininn og gat tengt ipadinn en gekk ekki eins vel með tölvuna.