13.10.2009

Þriðjudagur, 13. 10. 09.

Þegar ráðherrar tala jafnan á þann veg, að eitthvað kunni að gerast næstu klukkustundir, daga eða vikur, og gefa jafnframt til kynna, að þeir ráði ekki niðurstöðunni, leiðir það til trúnaðarbrests milli ríkisstjórnar og umbjóðenda hennar. Á skömmum tíma hafa þetta orðið örlög ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Í kvöld talaði Steingrímur J. Sigfússon enn einu sinni á þennan veg um Icesave-málið. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, talaði einnig á þennan veg um framtíðareignarhald á bönkunum. Hvers vegna bíða ráðherrarnir ekki með yfirlýsingar, þar til þeir hafa eitthvað örugglega fast í hendi?

Jóhanna Sigurðardóttir ræðir oftast um störf stjórnar sinnar með þeim orðum, að eitthvað sé til skoðunar, mál muni skýrast á næstunni og þannig fram eftir götunum. Traust til Jóhönnu hefur einnig snarminnkað. Forsætisráðherra er þolað að tala í hálfkveðnum vísum á fyrstu vikum stjórnarsamstarfs en ekki eftir að hafa setið rúma átta mánuði í embætti.

Sama er hve marga upplýsingafulltrúa eða spunameistara ráðherrar fá sér til aðstoðar, þeir eru einskis nýtir, ef framganga ráðherranna sjálfra vekur ekki traust. Frægt var þegar Kristján Kristjánsson, þáverandi upplýsingafulltrúi Jóhönnu, sagði, að fyrst yrði ríkisstjórnin að móta sér Icesave-stefnu, áður en unnt yrði að kynna hana.

Einkenni Jóhönnu er, að hana virðist skorta kjark til að leita lausna í samtölum og með mati á ólíkum sjónarmiðum. Henni sýnist tamast að krefjast þess einhliða af öðrum, að þeiri styðji hana, þótt þeir séu henni augljóslega ósammála.  Einmitt þess vegna ákvað Ögmundur Jónasson að hverfa úr ríkisstjórninni.

Jóhanna getur ekki vænst þess, að stjórnarandstaðan leysi stjórn hennar hvað eftir annað út snörunni. Skorti hana fylgi við stefnu sína á alþingi, án hún að segja af sér. Jóhönnu skortir hins vegar einnig kjark til að horfast í augu við þá staðreynd.