31.10.2009

Laugardagur 31. 10. 09.

Í dag ritaði ég pistil um laumuspil í ESB-málum, óskhyggju Ögmundar Jónassonar og ný-einkavæðingu bankanna.

Um árabil hafa ráðherrar haft ráðstöfunarfé til þess að koma til móts við óskir um fjárveitingar. Reglulega hefur verið spurt um ráðstöfun þessa fjár og birt um það yfirlit í þingtíðindum. Fyrir nokkrum misserum fékk Kastljós sjónvarpsins sérstakan áhuga á þessu fé og tók að kalla það „skúffufé“ og hefur sérstaklega verið fundið að því, að ráðherrar verji því til verkefna í eigin kjördæmum. Allar frásagnir í Kastljósi hafa verið því marki brenndar, að hlustendur geta ekki annað en efast um gildi verkefna, sem notið hafa þessa stuðnings, eða hug þann, sem bjó að baki ákvörðun viðkomandi ráðherra - hann hafi líklega meira verið að hugsa um sjálfan sig en þann, sem styrksins naut.

Af eigin reynslu veit ég, að stuðningur af þessum lið fjárlaga hefur skipt sköpum fyrir marga og ráðið úrslitum um framgang eða upphaf margra markverðra verkefna.

Í kvöld birti sjónvarpið viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur um málið og sagði hún, að setja ætti reglur um ráðstöfun á þessu fé eða taka það úr höndum ráðherra. Spyrja má af þessu tilefni: Telur Jóhanna, að ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafi sýnt dómgreindarleysi við ráðstöfun á þessu fé? Ef svo er, í hvaða tilvikum?