26.10.2009

Mánudagur, 26. 10. 09.

Skýrt hefur verið frá því, Jan Guillou, sænskur höfundur njósnabóka, starfaði um tíma fyrir njósnastofnun Sovétríkjanna, KGB. Tengiliður hans við KGB var Jevgeníj Gergel, sem var í sovéska sendiráðinu í Stokkhólmi 1964 til 1970. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, bendir réttilega á í pistli á pressan.is í dag, að Gergel var í sovéska sendiráðinu hér á landi 1973 til 1979. Á þeim árum var ég skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og man eftir Gergel og vitneskju íslenskra stjórnvalda um, að hann væri einn af KGB-mönnunum í sendiráðinu.

Úr þvíað Gergel réð Guillou til starfa fyrir KGB í Svíþjóð, hlýtur verkefni hans hér á landi að hafa verið að leggja snörur fyrir menn í sama tilgangi, það er að miðla leynilegum upplýsingum um íslensk stjórnmál til Moskvu. Þetta voru spennandi tímar fyrir KGB-menn á Íslandi. Gergel kemur til landsins á tíma vinstri stjórnar, sem vildi varnarliðið á brott. Á þessum árum var einnig hart deilt við Breta vegna 50 og síðan 200 mílnanna. Mótmæli gegn Bretum snerust í andúð á NATO og bandaríska varnarliðinu - draumaþróun fyrir undirróðursmann KGB.

Þegar Gergel hverfur héðan, er þorskastríðunum lokið með sigri Íslendinga, varnarliðið er enn á landinu og mynduð hefur verið fyrsta vinstri stjórn sögunnar, sem ekki hafði brottför varnarliðsins á dagskrá sinni. Að þessu leyti tókst Kremlverjum ekki að koma ár sinni vel fyrir borð hér á landi. Hins vegar er óupplýst, hvort Gergel tókst að krækja sér í einhvern íslenskan samverkamann á borð við Jan Guillou í Svíþjóð.