24.10.2009

Laugardagur, 24. 10. 09.

Undanfarna morgna og í morgun hefur verið einstakt að fylgjast með komu þeirra í Laugardalslaugina, sem taka þar þátt í Evrópumóti fatlaðra. Einbeitni og dugnaður einkenna keppendur í búningsklefunum og fyrir okkur, sem teljum okkur heilbrigða til líkama og sálar, er að í raun yfirmannlegt hvernig sumir þessara einstaklinga búa sig til keppni. Er mikið ánægjuefni, að forráðamenn Íþróttafélags fatlaðara skuli hafa ráðist í þetta stórvirki og það hafi tekist þeim svo vel úr hendi. Fyrir okkur, sem sækjum sund að jafnaði klukkan 06.30 hefur þetta ekki valdið neinni röskun, þvert á móti aukið skilning okkar á því, hve mikilvægt íþróttastarf í þágu fatlaðra er. Þá hefur ekki spillt fyrir, að í vikunni hefur verið sannkölluð haustblíða svo snemma á morgnana.

Í morgun klukkan 10.00 var ég á fjömennum fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég sé, að sagt er frá hluta ræðu minnar á amx.is og hef ekki neinu við það að bæta, að minnsta kosti ekki að sinni.

Klukkan 18.00 hófst fundur og hátíð á vegum Wagnerfélagsins í Þingholti og flutti ég þar erindi, sem ég nefndi Wagnerarfurinn og fjölskyldan. Mun ég vekja athygli á því, þegar það kemur hér á síðuna, en ég vil breyta því úr erindi í grein, áður en ég birti textann.