6.10.2009

Þriðjudagur, 06. 10. 09.

Flaug um hádegisbilið til Kaupmannahafnar til að gista þar í nótt á leið til Kiev.

Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, hefur rekið yfirmann danska hersins vegna hneykslismáls í tengslum við bók eftir hermann í sérsveit hersins. Politiken birti bókina í fylgiblaði, þegar lá í loftinu að útgáfa hennar yrði bönnuð með vísan til gæslu ríkisleyndarmála.

Þá er rætt um að flytja yfirstjórn hersins inn í varnarmálaráðuneytið, til að þurrka út óæskilegt bil og jafnvel afbrýðissemi milli ráðherra og yfirhershöfðingjans. Gade vill að þetta sé gert en orð hans hafa átt lítinn hljómgrunn til þessa, Það er að breytast núna. Skipulag innan Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, er nefnt sem fyrirmynd að þessu leyti, þar sé pólitísk og hernaðarleg forysta á einum stað.

Þegar ég hreyfði því um árið, að rétt væri að leita til einkaaðila vegna húsnæðis fyrir fanga, það er vegna fangelsa, ætluðu sumir að fara af hjörunum og þá ekki síst stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar. Innan dómsmálaráðuneytisins er nú farið yfir 12 tilboð um einkareknar fangelsisbyggingar og virðist öllum nú sjálfsagt, að sú leið sé farin.

Nafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur verið breytt í dóms- og mannréttindaráðuneyti. Þessi breyting er ekki til bóta. Orðið mannréttindi er of gildishlaðið til að vera í ráðuneytisheiti. Raunar skilst mér að þetta sé til bráðabirgða, því að mynda eigi innanríkisráðuneyti á rústum dóms- og mannréttindaráðuneytisins.