16.10.2009

Föstudagur, 16. 10. 09.

Hér er þáttur minn í ÍNN síðastliðinn miðvikudag með Ársæli Valfells.

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, átti í dag að flytja ávarp á ráðstefnu á vegum lagadeildar Háskóla Íslands um mannréttindamál. Hún varð frá að hverfa vegna mótmæla þeirra, sem telja, að ekki eigi að fara að lögum við afgreiðslu á málefnum hælisleitenda. 

Sigurður Rúnar Sæmundsson bloggar á þennan veg af þessu tilefni:

„Það er alltaf auðveldast að skjóta fyrir sig reglum, til að losna við að taka afstöðu. En ráðherra Íslands á ekki að gera það. Hann á að taka afstöðu, samkvæmt eigin sannfæringu. Ragna, af öllu fólki á að eiga létt með það. Hún er ekki bundin af pólitískum böndum.

Þessi ákvörðun er ákvörðun Rögnu Árnadóttur, ekki neinna annarra.“

Þessi orð lýsa ótrúlegri vanþekkingu á íslenskri stjórnskipan, skyldum og ábyrgð ráðherra. Í fyrsta lagi er fráleitt, að ráðherra sé óbundinn að lögum. Í öðru lagi alrangt, að í málum, sem þessum eigi sannfæring ráðherra að ráða. Í þriðja lagi er út í hött, að Ragna Árnadóttir eigi ekki að fara að lögum, af því að hún sé ekki „bundin af pólitískum böndum“.

Hitt er umhusgunarefni, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skuli ekki bregða pólitískum skildi fyrir Rögnu vegna hinna ómaklegu árása á hana. Í fyrsta lagi á heimili hennar og síðan á málfrelsi hennar á fundi í Háskóla Íslands. Jóhanna heldur ekki málstað þjóðarinnar fram á alþjóðavettvangi og þegir þunnu hljóði, þegar veist er að ráðherra í ríkisstjórn hennar, ráðherra, sem hefur ekki stjórnmálaflokk að baki sér og því í raun ekki annan en forsætisráðherrann.

Ég sá ekki betur en Egill Helgason væri á mótmælafundi vegna hælisleitenda á Lækjartorgi í dag. Hann átti kannski bara leið framhjá eins og á gamlársdag, þegar hann var álengdar við mótmæli gegn Kryddsíld Sigmundar Ernis á Stöð 2.

Þegar horft er á myndband á mbl.is af fundinum í Háskóla Íslands, vekur athygli, að fundarboðendur virðast ekki lyfta litla fingri til að hafa stjórn á mótmælendum, þegar þeir brjóta öll almenn fundarsköp með öskrum sínum.