4.10.2009

Sunnudagur, 04. 10. 09.

Glöggur lesandi síðu minnar nefndi við mig eftir færslu mína í gær, að David Cameron hefði sagt, að hann mundi leggja Lissabon-sáttmálann undir þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, hefði afgreiðslu hans ekki verið lokið í öllum ESB-ríkjum, þegar hann yrði forsætisráðherra. Þetta er rétt en Cameron hefur einnig gefið til kynna, að hann eigi plan B, sem hann muni grípa til, hafi sáttmálinn hlotið afgreiðslu og breska þjóðin eigi að fá að segja álit sitt. Hann hefur haldið þessu plani B hjá sér en kynnir það líklega á flokksþingi íhaldsmanna, sem hefst í Manchester í dag.

Þá liggur fyrir, að Cameron hefur ritað einkabréf til Vaclavs Klaus, forseta Tékklands, og beðið hann að draga eins lengi og honum sé fært að rita undir fullgildingarskjöl Lissabon-sáttmálans. Nokkrir öldungardeildarþingmenn í Tékklandi lögðu sáttmálann fyrir tékkneska stjórnlagadómstólinn, sem er með hann til skoðunar í nokkrar vikur eða mánuði. Fréttir berast um ráðagerðir í Brussel um að beita tékkneska forsetann þrýstingi.

Íslensk stjórnvöld kynntust því fyrir tæpu ári, hvernig Brussel-valdið getur sett ríkjum úrslitakosti í eigin þágu og einstakra aðildarríkja eins og Bretlands og Hollands og síðan beitt áhrifum sínum gegn ríkjum á öðrum vettvangi, eins og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ríkisstjórn Íslands hefur bognað vegna þessa þrýstings. Fylgst verður náið með því, hvort Vaclav Klaus bognar einnig.