23.10.2009

Föstudagur, 23. 10. 09.

Hugsmiðjan efndi í dag til kynningarfundar fyrir vini sína á nýju forriti. Ég hef verið með bjorn.is hjá Hugsmiðjunni í Eplica-kerfinu síðan 2002. Hefur það reynst mér vel og þjónusta alltaf verið góð, ef eitthvað hefur á bjátað.

Við færslu á síðunni á sínum tíma úr einu kerfi í annað, tókst ekki að færa allt efni úr gamla kerfinu á þann veg, að greinarskil birtust. Nú hefur verið bætt úr því og  tel ég, að allt efni á síðunni frá 1995 hafi verið fært upp í Eplica-kerfið á þann veg, að greinarskil birtist. Á hinn bóginn kunna gæsalappir eða þankastrik stundum að birtast sem spurningamerki.

Ég verð var við, að margir gestir á síðu mína eru að leita að öðru efni en því, sem ég set inn á hana daglega, enda er mikið efni á síðunni, sem veitir sýn á þróun stjórnmála eða þeirra málaflokka, sem hafa verið á dagskrá minni í allan þann tíma, sem síðan spannar.

Vilji ég vekja umræður um síðuna, þarf ég ekki annað en skrifa um Egil Helgason. Þá tekur hann kipp, aðdáendur hans og gagnrýnendur. Tel ég sérstakt rannsóknarefni fyrir áhugamenn um fjölmiðla að kynna sér hið tilfinningalega uppnám, sem umræður um síðu Egils vekur. Hún nýtur sérstöðu að því leyti, að stjórnendur RÚV telja hana ekki falla undir ábyrgð sína, þótt Egill sé starfsmaður þeirra. Á hinn bóginn ýttu þeir fyrir nokkrum árum manni úr starfi af fréttasviði RÚV vegna þess, hvernig hann bloggaði um Bónusfeðga og Baug á einkavefsíðu sína. Reglan um Jón og séra Jón gildir að þessu leyti á RÚV.