27.10.2009

Þriðjudagur, 27. 10. 09.

Undarlegt er að sjá samfylkingarbloggarana reita hár sitt af reiði yfir því, að Bjarni Benediktsson. formaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi nota ræðustól Norðurlandaráðsþings í Stokkhólmi og málfrelsi þar til að lesa norrænum stjórnmálamönnum, öðrum en Færeyingum, pistilinn fyrir að hanga í pilsfaldi Breta og Hollendinga og fara að fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrisjóðsins varðandi samskipti við okkur Íslendinga.

Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, svaraði heldur hrokafullt, eins og kannski við var að búast, þar sem hann vissi, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forystumenn íslensku ríkisstjórnarinnar, lágu í duftinu vegna málsins og friðmæltust, sérstaklega Jóhanna, enda hefur hálf ríkisstjórnin að minnsta kosti gengið í Evrópusambandið og vill engan styggja á þeim bæ.

Gísli Baldvinsson, sem mest bloggar fyrir Samfylkinguna norðan frá Akureyri og er jafnan kaþólskari en páfinn, þegar kemur að ESB-málstaðnum, veitist harkalega að Bjarna fyrir ræðuna í Stokkhólmi. 

Á dögunum stærði Gísli sig af því, að hafa verið í Sambandi ungra sjálfstæðismanna samtíða Davíð Oddssyni og sungið með honum Nallann á SUS-þingi! Umturnist menn í pólitík eða trúmálum verða þeir stundum fanatískari en hinir, sem halda ró sinni og bregðast við með rökum en láta ekki tilfinningar ráða för.

Gísli segir í fyrirsögn á bloggi sínu, þar sem hann flytur Jóhönnu lof fyrir að  særa ekki Reinfeldt hinn sænska: Bjarni Ben skammast og skammast sín ekki.