3.10.2009

Laugardagur, 03. 10. 09.

Írar samþykktu í gær með miklum meirihluta að staðfesta Lissabon-sáttmálann, það er nýjan stofnsáttmála Evrópusambandsins (ESB). Þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni var 58%.

Enn eiga Pólverjar og Tékkar eftir að samþykkja sáttmálann, en þar er hann ekki borinn undir þjóðina. David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, segir, að komist flokkurinn í ríkisstjórn muni hann leita álits bresku þjóðarinnar á sáttmálanum.

Samþykkt sáttmálans er forsenda þess, að Evrópusambandið stækki. Nú bendir allt til þess, að í Brussel vilji menn hengja aðild Íslands og Króatíu á sama snaga, en Króatar hafa leyst landamæraþrætu sína við Slóvena, svo að þeim þröskuldi hefur verið rutt úr aðildarvegi þeirra. Líklegt er, að í Brussel hafi menn einnig þá hugmynd, að samhliða því sem tillaga um aðild Íslands og Króatíu yrði lögð fyrir þjóðþing aðildarríkjanna verði sérstakir skilmálar vegna samþykkis Íra lagðir fyrir þingin.

Eins og kunnugt er ræður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki við Icesave-málið, en það er þröskuldur í ESB-viðræðuferli Íslendinga. Ögmundur Jónasson ákvað að hverfa úr ríkisstjórninni og vísaði til Icesave-málsins. Jón Bjarnason ráðherra er andvígur ESB-aðild. Verður hann látinn taka ráðherrapokann sinn?