17.10.2009

Laugardagur, 17. 10. 09.

Í vikunni var sagt frá því í fréttum RÚV, að svör við spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væru í lokavinnslu innan stjórnarráðsins og í samráði við þingnefnd, ef ég skildi rétt.

Utanríkisráðuneytið neitaði að þýða spurningarnar á íslensku og líklegt er, að svörin hafi verið samin á ensku og þá lögð fyrir þingnefndina á ensku. Þetta er andstætt meginreglunni um, að íslenska sé stjórnsýslumál á Íslandi og hér skuli stjórnmálamenn taka afstöðu til mála, sem fyrir þá eru lögð á íslensku. Reynslan af Icesave-málinu ætti að sýna betur en flest annað, hve mikilvægt er að fara nákvæmlega í saumana á því, sem lagt er fyrir aðrar þjóðir varðandi íslenska hagsmuni. Ræði stjórnmálamenn slíka texta aðeins á ensku er veruleg hætta á því, að eitthvað fari á milli mála. Hefur það rækilega sannast í Icesave-málinu.

Við afgreiðslu alþingis á tillögu Össurar Skarphéðinssonar um að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu varð sú breyting, að við textann var bætt, að ríkisstjórnin ætti að fara að áliti meirihluta utanríkismálanefndar við undirbúning ESB-viðræðnanna og skipulag þeirra. Varð þessi breyting til þess að auka stuðning við tillöguna á þingi, en 33 af 63 þingmönnum greiddi henni atkvæði.

Meirihlutinn mælti fyrir um samninganefnd undir forystu aðalasamningamanns eða manna, einnig 9 til 12 samningahópum um afmörkuð svið. Nefndin og hóparnir fylgi málinu frá upphafi ferlisins til enda, í því felist m. a. að undirbúa svör við spurningum sambandsins, taka þátt í yfirferð yfir regluverk Íslands og ESB og undirbúa samningsafstöðu Íslands.

Augljóst er, að þetta ákvæði í áliti meirihluta utanríkismálanefndar hefur ekki verið virt. Samninganefnd hefur hvorki verið skipuð né formaður hennar valinn. Það er  hins vegar til marks um skort á aðhaldi frá Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, að ekki skuli fundið að þessum vinnubrögðum Össurar Skarphéðinssonar og utanríkisráðuneytisins. Er það enn ein staðfesting á því, sem ég sagði hér á síðunni, þegar álit meirihluta utanríkismálanefnar lá fyrir, að ekkert bit væri í þessu áliti.