22.10.2009

Fimmtudagur, 22. 10. 09.

Sækjast sér um líkir. Einkennilegt, hve mörgum, sem leggja út af orðum mínum um lög um ríkisútvarpið og Egil Helgason, er ósýnt um sannleikann. Í því efni líkjast þeir Agli. Hann hefur haft í frammi ósannindi um mig. Að kvöldi 21. október sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali á Skjá einum við Sölva Tryggvason, að Egill hefði sagt ósatt um sig og atvik á fiskideginum mikla á Dalvík.  

Álitsgjafinn Árni Snævarr í Brussel segir ósatt, þegar hann heldur því fram, að ég vilji, að Egill sé rekinn frá ríkisútvarpinu. Mér er sama, hvar Egill stundar álitsgjöf sína. Ég tel hins vegar, að Páll Magnússon eigi að sjá til þess, að Egill fari að útvarpslögum. Páll segist ekki þurfa þess, af því að blogg Egils falli ekki undir útvarpslög. Um árið vék Óðinn Jónsson manni af fréttasviði RÚV, vegna þess sem maðurinn bloggaði um Bónusfeðga og Baug á vefsíðu sína. Gilda einnig sérreglur innan ríkisútvarpsins að þessu leyti um Egil? Eða er ekki sama á hvern starfsmenn ríkisútvarpsins ráðast á bloggi sínu?

Viti ég rétt starfar Árni Snævarr hjá Sameinuðu þjóðunum. Honum dugar ekki að segja ósatt um skoðanir mínar á bloggsíðu sinni. Hann vill gera hlut minn enn verri með því að uppnefna mig, eins og rökþrota ósannindamenn gera gjarnan, og bæta orðunum Kim il fyrir framan nafn mitt. Það er örugglega ekki gert til heiðurs einræðisherranum í Norður-Kóreu. Skyldu starfsmenn utanríkisþjónustu Norður-Kóreu leita álits hjá yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna á því, hvers leiðtogi þeirra eigi að gjalda með þessum óhróðri frá starfsmanni samtakanna? 

Upphrópanir, uppnefni og ósannindi breyta ekki þeirri skoðun minni, að Egill Helgason fer á svig við lögin um ríkisútvarpið, og útvarpsstjóra beri að taka á málinu. Þá tel ég, að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins eigi að gilda, þegar yfirmenn ríkisútvarpsins grípa til agaviðurlaga í tilefni af bloggi starfsmanna stofnunarinnar. Gildi mismunandi reglur eftir því um hvað starfsmennirnir blogga, er eðlilegt að ríkisútvarpið birti reglurnar opinberlega.