29.10.2009

Fimmtudagur, 29. 10. 09.

Í viðtali mínu við Ögmund Jónasson á ÍNN í gærkvöldi kom fram, að hann telur, að breyting hafi orðið á þann veg á Icesave-samningunum, eftir að hann lét af starfi ráðherra, að nú sé unnt að ræða við Hollendinga og Breta um málið, eftir að það hafi farið fyrir dómstól, skapist á annað borð aðstæður til að leita álits dómara. Viðræðurnar muni snúast um dóminn og verði hann Íslendingum í hag hljóti Hollendingar og Bretar að taka mið af honum eftir þessar viðræður. Leggur Ögmundur mikla áherslu á, að þingmenn ræði málið á þeim nótum, sem hann lýsir, tali málið upp en ekki niður eins og hann orðaði það.

Ég sagði þá ríkisstjórn hanga á veikum bláþræði, sem ætti líf sitt undir svona orðræðu. Mér virtist Ögmundar túlka þessa breytingu því í hag, að hann gæti stutt ríkisstjórn Jóhönnu, en hann tæki ekki mið af þeirri óbilgirni, sem Bretar og Hollendingar hefðu sýnt. Eitt væri, að Ögmundur vilji geta stutt ríkisstjórnina, annað raunveruleik Breta og Hollendinga.

Í öllum málflutningi Ögmundar gætir tvíhyggju. Hann segist ekkert mál hafa afgreitt í ágreiningi úr stjórn BSRB í þau 21 ár, sem hann var þar formaður. Frá 1995 hefur hans hins vegar verið þingmaður, lengst af í harðvítugum slag við ríkisstjórn, ekki maður neinna málamiðlanna þar. Hann situr í ríkisstjórn einn daginn en fer úr henni hinn, af því að hann sættir sig ekki við að geta ekki farið sínu fram í máli, sem ræður úrslitum um líf eða dauða ríkisstjórnarinnar. Kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að líklega geti hann stutt stjórnina, þegar öllu sé á botninn hvolft, af því að hann túlkar orðalag sér og ríkisstjórninni í vil, þótt Bretar og Hollendingar eigi síðasta orðið um túlkunina. Þegar ég spyr, hvort rétt sé, að með þessari afstöðu sé hann að búa í haginn fyrir endurkomu í ríkisstjórnina, segist hann ekki vera svo lítill karl. Í hinu orðinu segist þó ekki útiloka að verða aftur ráðherra.

Ímynd Ögmundar er sú, að hann sé fylginn sér og stefnufastur. Að því leyti eru þeir svipaðir Steingrímur J. og Ögmundur, að þeim mislíkar ekki að geta hagað seglum eftir vindi, þótt þeir vilji teljast stefnufastir. Steingrími J. er þó auðveldara en Ögmundi að kasta stefnumiðum fyrir róða, þegar völdin eru í húfi. Mér sýnist þó, að Ögmundur sé að búa sig undir að gangast undir Icesave vegna valdanna, eins og hann lét ESB-aðildarviðræður yfir sig ganga til að geta sest í ríkisstjórn með Samfylkingunni.