18.10.2009

Sunnudagur, 18. 10. 09.

Klukkan 11.30 flaug ég til Vestmannaeyja en klukkan 13.00 hófst þar í Golfskálanum stofnfundur Heimssýnar Vestmannaeyjum, en félagið er staðbundin deild Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ég flutti erindi um tengsl Íslands og Evrópusambandsins (ESB) auk þess að svara fyrirspurnum fundarmanna. Umræður voru líflegar. Mér er sagt, að ætti að halda fund í Eyjum með og á móti Evrópusambandsaðild yrði erfitt að finna nokkurn heimamann, sem mælti með aðild. Þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti, en víst er, að á þeim fundi, sem ég sat, spurðu fundarmenn á þann veg, að þeir hafa greinilega skýr rök fyrir andstöðu sinni við aðild Íslands að ESB.

Í stjórn Heimssýnar Vestmannaeyjum valdist fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Stofnfundurinn samþykkti einróma að skora á ríkisstjórnina að draga umsókn um aðildarviðræður við ESB til baka.

Ánægjulegt var að fá tækifæri til að kynnast sjónarmiðum Eyjamanna til fleiri mála en ESB. Mikill uppgangur er í samfélagi þeirra um þessar mundir. Öflug fyrirtæki blómstra og bæjarfélaginu hefur verið stjórnað á þann veg, að fjárhagur þess er traustur og góður. Sannar þessi staða enn dugnað og forsjálni þeirra, sem í Vestmannaeyjum búa.

Yfir útgerð og fiskvinnslu hvílir hins vegar nokkur óvissa, þar sem óljóst er, hver er stefna ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum, hvort hún ætli að fara hina svonefndu fyrningarleið eða grípa til annarra úrræða til að raska stöðu útgerðarinnar.

Hið einkennilega er, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur vakið uppnám í öllum atvinnugreinum, sem helst reynir á við endurreisn efnahags þjóðarinnar. Hvað ætlar ríkisstjórnin sér fyrir í sjávarútvegsmálum? Hvers vegna er brugðið fæti fyrir stórhuga áform í stóriðjumálum? Af hverju er lagt af stað í ESB-vegferðina, sem mun kippa löppunum undan íslenskum landbúnaði?

Ríkisstjórnin hefur gefist upp í annað sinn í Icesave-málinu. Nú segist Jóhanna hins vegar hafa þingmeirihluta fyrir uppgjöfinni. Hvílík niðurlæging! Þegar ég hlusta á Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segja blákalt, að Hollendingar og Bretar hafi hrokkið í Icesave-liðinn við afsögn Ögmundar Jónassonar, af því að þeir hafi ekki viljað stjórnarkreppu á Íslandi, fer um mig aulahrollur.

Ég hef sett pistil inn á síðu mína, sem sýnir, að Íslendingar eru blóraböggull vegna ófullburða regluverks ESB um bankastarfsemi.