15.10.2009

Fimmtudagur, 15. 10. 09.

Undrun vekur, að fulltrúi Rauða kross Íslands annars vegar og Amnesty International hins vegar skuli segja í RÚV, að það stangist á við lög og reglur, að hælisleitendum sé vísað héðan til Grikklands og láta í veðri vaka, að Dublin-reglurnar um meðferð hælisleitenda séu andstæðar mannréttindum. Hvorugt stenst gagnrýni. Hitt er síðan einkennilegt, ef þessir málsvarar laga og réttar mótmæla því ekki, að ráðist sé að heimili dómsmálaráðherra vegna lögmætra ákvarðana um brottvísun þessara hælisleitenda.

Nýlega var vitnað í Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann taldi, að lög væru túlkuð of linlega varðandi brottvísun manna, sem hér stunda afbrot. Lögreglustjóri mælir hér fyrir munn margra. Nú beinist athygli til dæmis að hópi Litháa, sem grunaðir eru um að stunda mansal. Er leitað að litháískri konu á Suðurnesjum, af því að hún kunni að vera fórnarlamb þeirra.

Á sama hátt og farið er að lögum við brottvísun hælisleitenda verður einnig að fara að lögum um rétt brotamanna til að dvelja hér á landi. Sé óvissa um, hvernig túlka beri þessi lög varðandi brotamennina, verður að fá niðurstöðu dómstóla til að eyða þessari óvissu.