30.10.2009

Föstudagur, 30. 10. 09.

 

Á Wordsmith.org er í dag að finna orðið „draconian“ sem dregið er af Draco, sem uppi var seint á 7. öld fyrir Krist í Aþenu og geymist í sögunni, vegna þess hve refisglaður hann var og setti hörð refsilög.

Í stjórnartíð Dracos og samkvæmt lögum hans var dauðarefsing við stóru og smáu, til dæmis leti. Þegar hann var spurður, hvers vegna hann beitti dauðarefsingu fyrir flest brot, er hann sagður hafa svarað, að léttvæg brot réttlættu hana og hann vissi ekki um neina þyngri refsingu fyrir alvarlegri brot. Haft var á orði, að lög hans væru skráð með blóði í stað bleks.

Þegar litið er til lýsingar á inntaki laga, hefur nafn eftirmanns Dracos komist inn í málið með gagnstæða merkingu en Dracos. Sólon, lagasmiður í Aþenu, vann að því að breyta lögum Dracos með mannúðlegri refsingu að leiðarljósi og tengist nafn hans því að vera „vitur löggjafi“. Sólon sagði: Lögin eru köngulóarvefur, ef eitthvað lítið brýtur í bága við þau snara þau það, en hið stóra rýfur vefinn og sleppur.

Þessi orð Sólons eiga við enn þann dag í dag. Gengið er harðar gegn einstaklingum, sem skulda lítið, en félögum eða fyrirtækjum, sem mikið skulda. Einkavæðing banka fyrir hrun var fyrir opnum tjöldum en ekki ný-einkavæðing banka eftir hrun.  Ríkisvaldið veitir nú skjól fyrir fjármálalegar ákvarðanir, sem lutu aðhaldi þess og eftirliti fyrir hrun.