3.5.1997 0:00

Laugardagur 3.5.1997

Í hádegi laugardagsins 3. maí gat ég í nokkrar mínútur hlustað á Davíð Oddsson flytja ræðu sína hjá SVS og Varðbergi. Síðan fór ég klukkan 13 og var viðstaddur upphaf 8. fulltrúaþings Kennarasambands Íslands, þar sem ég flutti ávarp . Þaðan fór ég í hús iðnaðarmanna við Hallveigarstíg og leit stuttlega á skemmtilega sýningu á nýsköpunarverkefnum grunnskólanema, síðan skrapp ég á sýningu Sigríðar Ásgeirsdóttur í Stöðlakoti. Klukkan 16.00 vorum við Rut komin í Gerðarsafn, þar sem kom í minn hlut að opna sýningu á verkum Önnu-Evu Bergmann. Þaðan fórum við rakleiðis í Garðabæ á tónleika, sem hófust klukkan 17 og voru liður í Tónlistarhátíð í Garðabæ vegna 200 ára afmælis Schuberts. Þar komu fram Robert Holl bassabarítón og Gerrit Schuil píanóleikari, en hann er listrænn stjórnandi þessarar hátíðar. Holl kom sérstaklega til að syngja á þessum frábæru ljóðatónleikum fyrir fullu húsi þakklátra áheyrenda.