7.10.2011

Föstudagur 07. 10. 11

Ég hef ekki lesið viðtalið við Jón Ásgeir Jóhannesson í DV í dag. Það ýtir hins vegar enn undir þá skoðun að ítök Jóns Ásgeirs í fjölmiðlaheiminum séu meiri en sýnist.  Þess má minnast að hann leyndi því að hann ætti Fréttblaðið í tæpt ár eftir að hann keypti það. Á þeim tíma (1. mars 2003) birti Reynir Traustason, ritstjóri og einn eigenda DV , frásagnir af stjórnarfundum Baugs og myndir af úrklippum úr fundargerð stjórnarinnar og Jón Ásgeir lýsti undrun og reiði yfir birtingunni. Þeir félagar settu með öðrum orðum á svið leikrit. Birting Fréttablaðsins úr fundargerðum Baugs hefði borið allt annan blæ ef vitað hefði verið um eignarhald Baugs á blaðinu. Viðtalið við Jón Ásgeir í DV hefði á sér annan blæ ef vitað væri að hann hefði komið blaðinu og eigendum þess fjárhagslega til hjálpar. Að sjálfsögðu neita þeir Reynir og Jón Ásgeir að um slík samskipti þeirra í þágu DV sé að ræða. Annað væri stílbrot af beggja hálfu.

Jón Magnússon hrl. og lögfræðingur minn vegna stefnu Jóns Ásgeirs gegn mér hefur nú tekið á móti greinargerð Gests Jónssonar, hrl., lögfræðings Jóns Ásgeirs. Þar kemur í raun ekkert annað fram en endurtekning á kröfum mér á hendur vegna prentvillu sem ég hef leiðrétt með afsökun til Jóns Ásgeirs. Enginn réttarágreiningur er af minni hálfu um nauðsyn þess að ómerkja orðið "fjárdrátt" þegar rætt er um dóminn yfir Jóni Ásgeiri. Hann var dæmdur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot. Að ég hafi af ásetningi ætlað að breyta dómsniðurstöðu sem var á hvers manns vörum og blekkja einhvern með því er fráleitt.

Frá því að ég gaf út bók mína Rosabaugur yfir íslandi hefur verið hnýtt í mig á dv.is í sama dúr og gert var þegar allir vissu um eignarhald Baugs group á blaðinu. Eitt af því sem DV leggur á sig til að setja mig á bás er að kalla mig „eftirlaunaþega“ eða „eftirlaunamann“. Öruggt er að þetta gerir blaðið ekki til heiðurs eftirlaunaþegum. Þvert á móti verður þessi aðferð blaðsins ekki skilin á annan hátt en þann að ritstjóranum þyki á einhvern hátt unnt að særa menn með því að vekja máls á aldri þeirra. Hefði mátt ætla að blaðamennska af þessu tagi hefði fyrir löngu runnið sitt skeið. Hún er í ætt við að víkja til háðungar að útliti manns, klæðaburði, háralit eða þyngd - svo að dæmi séu tekin af handahófi.

Lágkúra af þessu tagi dæmir sig sjálf. Selji hún blöð hagnast DV ekki á henni á almennum sölustöðum blaða eða hjá áskrifendum. Hún kann hins vegar að kalla á fjárfesta sem vilja hafa slíka blaðamennsku í hávegum.