Miðvikudagur 19. 10. 11
Í dag lýsti ég undrun minni á Evrópuvaktinni yfir því að stækkunarmenn ESB hefðu ekki sagt mér í gær að yfirmaður þeirra, Ŝtefan Füle, væri á leiðinni til Íslands. Ég spyr mig af þessu tilefni hvort ástæðulaust sé að treysta þeim eða heitstrengingum þeirra um gegnsæi og opna umræðu. Þær nái ekki lengra en þeir telji sér henta hverju sinni.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segist túlka lög rétt en hvorki ríkislögreglustjóri né innanríkisráðuneytið. Þá segist hann einnig hafa meira vit á því núna, árið 2011, en ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðuneytið sumarið 2009 hvort ástæða hafi verið til að óttast frekari mótmæli eins og urðu í janúar 2009.
Einelti birtist í ýmsum myndum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sætir því af hálfu DV vegna Sjóvá-málsins svonefnda, það er meðferð á fjármunum fyrir hrun. DV hefur elt Bjarna vegna málsins misserum ef ekki árum saman. Nú koma álitsgjafar á borð við snillinginn Egil Helgason og setja einekti DV í tengsl við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Meinsemd í íslensku þjóðlífi stafar örugglega af óvandaðri fjölmiðlun. Hún magnast en minnkar ekki.
DV heldur áfram lygasögunni um að Evrópuvaktin hafi fengið styrk frá ESB þegar alþingi veitti henni styrk til að stuðla að umræðum um Evrópumál.
Athyglisvert er að eineltismennirnir á DV segja ekkert frá Baugs-skattamálinu eða því sem fram kemur í yfirheyrslum í því. Skýrir það kannski hvers vegna blaðið heldur áfram að sjá dagsins ljós?